Það er erfitt að þræta fyrir það að Xabi Alonso sé í dag eftirsóttasti þjálfari heims en hann vinnur hjá Bayer Leverkusen.
Allt stefnir í að Leverkusen muni vinna þýsku Bundesliguna á tímabilinu undir Alonso sem lék með liðum eins og Liverpool, Real Madrid og Bayern Munchen á sínum ferli.
Alonso er sterklega orðaður við endurkomu til Liverpool en Jurgen Klopp mun kveðja enska félagið í sumar.
Reiner Calmund, fyrrum stjórnarformaður Leverkusen, hvetur Alonso til að horfa frekar til Spánar en að hætta sér til Englands svo snemma.
,,Ég held að hann muni ekki yfirgefa Leverkusen fyrir Liverpool þó þáð sé spennandi tækifæri,“ sagði Calmund.
,,Alonso vann Meistaradeildina með Liverpool og vann deildina þrisvar með Bayern. Það er engin spurning um að þetta séu spennandi kostir.“
,,Ef ég væri hans umboðsmaður þá myndi ég ekki ráðleggja honum að fara til Liverpool og taka við af Jurgen Klopp.“
,,Ég myndi ráðleggja honum að halda sig í Leverkusen í eitt eða tvö ár og svo taka við af Ancelotti hjá Real.“