Þættirnir voru framleiddir í Bretlandi á árunum 1997 til 2001 og nutu gríðarlegra vinsælda.
Í byrjun hvers þáttar birtist myndskeið af barnsandliti sem var baðað sólargeislum en þar var á ferðinni hin níu mánaða gamla Jess Smith.
Jess er í dag að nálgast þrítugt og eignaðist hún sitt fyrsta barn um miðjan janúar síðastliðinn. Um var að ræða stelpu sem fékk nafnið Poppy Rae Latham en Rae í nafninu er vísun í hlutverk hennar í Stubbaþáttunum sálugu.
En hvernig kom það eiginlega til að Jess fékk hlutverk í Stubbunum?
Hún sagði sjálf í viðtali við BBC að tilviljun ein hafi ráðið því. Hún hafi verið í reglubundnu eftirliti á sjúkrahúsinu þegar framleiðandi þáttanna var þar akkúrat á sama tíma. Vantaði hann brosmilt barn til að koma fyrir í inngangi þáttanna og reyndist það auðsótt.