Samantha hvarf sporlaust snemma á sunnudagsmorgni þann 4. febrúar eftir að hún fór út að skokka frá heimili sínu í Ballarat í Viktoríufylki í Ástralíu. Mjög umfangsmikil leit var gerð í kjölfarið sem skilaði engum árangri.
Sjá einnig: Nýjar vendingar í máli þriggja barna móður sem hvarf sporlaust
Lögregla tilkynnti svo í vikunni að einstaklingur hefði verið handtekinn vegna gruns um morð á henni. Lík hennar hefur ekki fundist en lögregla kveðst viss í sinni sök um að Patrick hafi ráðið henni bana sama dag og hún hvarf.
Dómstólar heimiluðu í morgun að hann yrði nafngreindur í áströlskum fjölmiðlum, en faðir hans spilaði um tíma sem atvinnumaður í Australian Football League.
Patrick og Samantha bjuggu skammt frá hvort öðru en ekki er talið að þau hafi þekkst. Ástralskir fjölmiðlar greina þó frá því að Samantha hafi unnið í St. Francic Xavier-skólanum, hinum sama og Patrick stundaði nám við sem barn. Þá er elsta dóttir Samönthu á svipuðum aldri og Patrick.
Að sögn lögreglu hefur Patrick ekki sagt lögreglu hvar hann kom líkinu fyrir.