Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.
„Mörg eyða stórum hluta dagsins með signar axlir og smettið borað ofan í snjallsímann. Þar sem við skrollum samfélagsmiðlana blasa uppstríluð, meiköppuð og fótósjoppuð smetti í hvívetna af Fési Insta, Tísti og Snappi. Við sjáum fallegar sjálfsmyndir og af tvöþúsund áttahundruð og fjórtán tilraunum er sú besta valin,“ segir Ragga.
Svo þarf að velja rétta filterinn.
„Filter sem felur línur á enni, og í kringum nef, hrukkur á höku og undir augum. Í hraða samfélagsins og við erum fangar algóriþmans sem fóðrar okkur á dópamíni í formi hraðans á myndunum sem renna upp símaskjáinn. Við stöldrum oft ekki nógu lengi við til að virkja framheilann og sjá í gegnum fótósjoppið og filterana,“ segir Ragga.
„Hér sé fullkominn æðri kynstofn á ferð. Halló Jósef Göbbels. Fólk sem vaknar með rennislétta, flekklausa húð og glansandi augu og sprettur hlæjandi fram úr rúminu. Þar sem glyrnurnar nema slíkar myndir og varpa þeim inn í heilann fer af stað innra samtal um að þú sért Ekki-nóg.
Ekki nógu fallegur.
Ekki nógu glamúrös.
Of hrukkuð.
Of þreytuleg.
Minnið reikar til grjótmyglaðrar spegilmyndar morgunsins og hellir olíu á sjálfseyðingabálið um að vera ekki nóg. Með bauga. Þreytt augu. Sigin augnlok.
Gegndarlaus samanburður við tvívíðar verur á skjánum veldur kvíða, depurð og mylur sjálfstraustið mélinu smærra.
Ekki-nógan tekur sér varanlega bólfestu í sálarkimum óharðnaðrar æskunnar sem ekki gerir endilega greinarmun á fílterum og fótósjoppi, og grjóthörðum raunveruleika.
Að pósta glimmerstráðum sýndarveruleika slær ryki í augu samferðafólksins.“
Ragga segir að það sé henni mikilvægt að mála ekki lífið bleikri málningu og það sé henni hjartans mál að sýna mannleikann í allri sinni dýrð.
„Að sýna muninn á fótósjoppi og berskjölduðu smetti. Að við erum öll bara mannleg í útliti þar sem við stikum göturnar í kjötheimum. Þar er enginn filter.“
Hún birti síðan tvær myndir, í raun sama myndin en á þeirri hægri má sjá Röggu eins og hún raunverulega er, en á þeirri vinstri er hún búin að setja filter.