Hótelið, sem er í eigu Davíðs Viðarssonar, áður Quang Le, var innsiglað í aðgerðum lögreglu í vikunni vegna gruns um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi. Hótelið er í sama húsi og einn af veitingastöðum Pho Vietnam-keðjunnar.
Á vefnum Booking.com er hótelið með einkunnina 6,1 og er það einkum staðsetningin sem gestir eru ánægðastir með. Annað, til dæmis þrifnaður, er eitthvað sem margir kvarta undan.
Í einni umsögn frá 18. febrúar síðastliðnum kvartar danskur gestur undan kakkalökkum á hótelinu. „Það er hægt að skilja að hótelið sé komið til ára sinna en það afsakar ekki skelfilega lykt, skítugt baðherbergi og kakkalakka í herberginu.“
Annar gestur frá Bandaríkjunum skrifaði umsögn í nóvember síðastliðnum. „Heimsins minnsta baðherbergi og sturta. Það er bókstaflega ekki hægt að standa fyrir framan vaskinn. Mygla í baðherberginu og sturtunni.“
Þá kvartar viðkomandi, eins og aðrir, undan bilaðri lyftu og slæmri lykt.
Annar bandarískur gestur, Jennifer, skrifaði umsögn í október og kvartaði þá undan kakkalakka í herberginu daginn sem þau yfirgáfu hótelið. Úkraínumaður sem skrifaði umsögn í júlí kvartaði undan óhreinindum í herberginu og „eggjalykt“ á baðherberginu. Þá hefði allt verið morandi í kakkalökkum.
Lögregla tilkynnti í gær að þrír karlar og þrjár konur séu í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar umfangsmikilla aðgerða í fyrradag.
Eins og fram hefur komið var tilefni aðgerðanna rökstuddur grunur um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og grunur um skipulagða brotastarfsemi.
Við rannsókn málsins hefur verið rætt við töluvert af fólki sem grunsemdir eru um að séu þolendur mansals.