Ísland og Ísrael mætast í undanúrslitum umspils um sæti á EM þann 21. mars. Spilað verður í Búdapest í Ungverjalandi þar sem KSÍ beitti sér gegn því að leikurinn færi fram í Ísrael.
Undanfarna daga og vikur hafa verið á kreiki vangaveltur um siðferði þess að spila leikinn við Ísrael í ljósi stríðsástandsins á Gaza og svo virðist sem einhverjir vilji hreinlega sjá Ísland sleppa því að mæta í leikinn.
„Ef íslenska liðið tæki upp á því að mæta ekki til leiks í Búdapest myndi það kosta þungar refsingar, jafnvel útilokun frá mótum á vegum UEFA,“ skrifar Víðir í Bakverði.
„Þá yrði um leið Ísrael færður úrslitaleikur gegn Úkraínu eða Bosníu um sæti á EM á silfurfati. Væri það sanngjarnt? Um þetta má endalaust þrefa fram og til baka.“
Víðir telur að UEFA þyrfti að taka skýrari afstöðu í svona málum.
„Þessi staða vekur spurningar. Rússar eru í banni hjá UEFA síðan þeir réðust inn í Úkraínu og það þykir sjálfsagt. Þarf ekki UEFA að draga skýrar línur í svona málum? Koma á vinnureglum um að þjóðir sem standi í hernaði eins og Rússar og Ísraelsmenn um þessar mundir taki ekki þátt í mótum á vegum sambandsins á meðan stríðsástand varir? Þá vita allir hvar þeir standa.“