Vildu vísindamenn vita hvaða áhrif öll þessi bóluefni hefðu haft á líkamsstarfsemi mannsins. Til að gera langa sögu stutta virðist manninum ekki hafa orðið meint af, þvert á móti.
Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Lancet Infectious Diseases að því er fram kemur í frétt BBC.
Maðurinn sem um ræðir er frá Magdeburg og höfðu rannsakendur rekist á sögu hans í þýskum fjölmiðlum. Maðurinn fór í allar þessar bólusetningar „vísvitandi og af persónulegum ástæðum“ á 29 mánaða tímabili.
Vísindamenn rannsökuðu meðal annars munnvatns- og blóðsýni og báru saman við eldri blóðsýni sem tekin voru áður en Covid-19 braust út.
Vísindamenn töldu að þetta magn bóluefna myndi setja ónæmiskerfi mannsins á yfirsnúning og „þreyta“ svokallaðar T-frumur líkamans sem berjast meðal annars gegn því sem er framandi í líkamanum, bakteríum og veirum til dæmis. Töldu vísindamenn að maðurinn yrði því verr í stakk búinn til að takast á við veiruna en ella.
En annað kom á daginn því maðurinn reyndist vera með fleiri t-frumur en einstaklingar í samanburðarhópi sem höfðu fengið þrjár bólusetningar gegn Covid-19. Þessar frumur voru líka í mjög góðu standi hjá Þjóðverjanum. Þá virðist maðurinn ekki hafa glímt við neinar aukaverkanir þó hann hafi fengið öll þessi bóluefni.
Í umfjöllun BBC kemur fram að vísindamenn mæli ekki með því að gangast undir svo margar bólusetningar. Þrjár bólusetningar gegn Covid-19 sé almennt talið nóg, en einstaklingar í áhættuhópi ættu þó að fara í örvunarbólusetningu með reglulegu millibili.