Bacary Sagna, fyrrum leikmaður Manchester City, fór í viðtal á dögunum þar sem hann rifjaði meðal annars upp þegar Pep Guardiola tók við liðinu árið 2016.
Guardiola átti auðvitað eftir að gera City að nær óvinnandi vígi en hann setti hinar ýmsu reglur á þegar hann mætti á svæðið 2016.
„Pep Guardiola er mjög agaður. Maður verður að skilja að þetta snýst ekki bara um það sem gerist á vellinum heldur allt lífið í kring. Þú þarft að hugsa um matarræðið, sem dæmi er þér hent úr liðinu ef þú ert einu kílói of þungur,“ sagði Sagna.
Ein regla fór í taugarnar á franska bakverðinum til að byrja með.
„Hann klippti á þráðlausa netið (wifi) í búningsklefanum. Þá leið mér eins og barni. Maður er pirraður til að byrja með og finnst maður ekki eiga að þurfa að lúta öllum þessum reglum.
Svo skilurðu allt þetta þegar þú sérð þá vinna þrennuna í vor. Þú verður að hafa rétta hugarfarið, annars ertu búinn að vera,“ sagði Sagna.