FH hefur átt misjöfnu gengi að fagna á undirbúningstímabilinu en Heimir segir það eðlilegt á þessum árstíma.
„Eins og oft á undirbúningstímabilinu hefur ekki verið mikill stöðugleiki. Við höfum verið að spila góða leiki og dottið niður þess á milli, sem er í sjálfu sér ósköp eðlilegt. Það eru búnar að vera erfiðar æfingar upp á síðkastið og nú förum við aðeins að létta þetta. Þetta hefur verið eins og við var að búast,“ segir Heimir í þættinum.
Það vakti athygli þegar FH tapaði 4-1 á heimavelli gegn Keflavík í Lengjubikarnum á dögunum.
„Við vorum bara slakir í leiknum en það breytir því ekki að þetta var stórt tap og ekki okkur sæmandi. Ef ég tek mið af síðasta tímabili vorum við að fá of mikið af mörkum á okkur. Ef við viljum bæta liðið og komast lengra þurfum við að fækka mörkunum sem við fáum á okkur. Þess vegna voru vonbrigði í þessum leik á móti Keflavík að fá á sig fjögur mörk og mörkin sem við fengum á okkur voru öll sirkus-mörk. Það er ekki nógu gott og eitthvað sem við þurfum að vinna í,“ segir Heimir.
Eftir arfaslakt tímabil árið 2022 tók Heimir við og bjartari tímar tóku við í fyrra. Liðið hafnaði að lokum í fimmta sæti, aðeins stigi frá Evrópusæti.
„Þetta var í okkar höndum en þetta rann okkur svolítið úr greipum í tapinu gegn Stjörnunni. Við sáum auðvitað framfarir á liðinu og erum ánægðir með það. Það er okkar að byggja ofan á það þegar tímabilið byrjar.“
Í þetta sinn ætlar Heimir sér að tryggja Evrópusætið.
„Ég tel það raunhæft markmið. Við þurfum að fækka mörkum sem við fáum á okkur og ná meiri stöðugleika en ég tel líka að við getum bætt okkur sóknarlega á síðasta þriðjung. Við höfum unnið mikið í því að reyna að bæta þessa hluti í vetur svo við ættum að vera betur tilbúnir á þessu tímabili en því síðasta.“
Heimir var spurður út í þá þróun að íslenskir leikmenn sem hafa komið heim úr atvinnumennsku dreifist nær aðeins á Val, Breiðablik, Víking og nú KR.
„Lykillinn að þessu er að vera í Evrópukeppni. Annars þarftu að fara aðrar leiðir. Við höfum reynt að virkja leikmannahópinn sem við erum með og gera hann sterkari en svo höfum við verið að bæta við leikmönnum sem við teljum að passi inn í það sem við erum að gera. En það er alveg rétt að við getum ekki keppt við þessi lið um bestu leikmennina.“
FH missti til að mynda af Jónatani Inga Jónssyni, uppöldum leikmanni félagsins, í vetur. Hann fór í Val.
„Það þýðir ekki að vera að svekkja sig á svona hlutum. Ég hefði auðvitað vilja fá hann en í fótbolta er þetta svona. Eina í þessu er að við hefðum kannski viljað fá að taka samtalið en ég vona að Jónatani gangi vel, nema á móti FH.“
Þó hefur FH styrkt hóp sinn nokkuð vel í vetur og er Heimir ánægður með hann. Hann er þó á eftir miðverði og horfir til Ísaks Óla Ólafssonar, sem er samningsbundinn danska félaginu Esbjerg fram á sumar.
„Þá erum við mjög ánægðir með leikmannahópinn okkar,“ segir Heimir.
Kjartan Henry Finnbogason lagði skóna á hilluna síðasta haust og gerðist aðstoðarþjálfari Heimis hjá FH. Heimir er mjög ánægður með hans störf. Það vakti þá athygli þegar Kjartan var á leikskýrslu FH gegn Gróttu á dögunum.
„Hann er stundum með okkur á æfingum. Hann er duglegur og nær vel til leikmanna og hefur gert það síðan hann kom inn í klúbbinn. Hann hefur haldið því áfram sem aðstoðarþjálfari. Varðandi leikinn var þetta bara mannekla. Hann bað um að gera þetta ekki. Sagði: „Það verður örugglega einhver fjölmiðlaumfjöllun.“ Ég sagði honum að ég myndi taka það á mig og nú er ég búinn að því,“ sagði Heimir léttur í bragði.
Nýtt hybrid-gras á æfingasvæði FH hefur fengið mikið umtal og telur Heimir að það verði bylting þegar það verður tekið almennilega í notkun.
„Við tókum eina æfingu þarna í haust. Þetta var bara geggjað. Rennslið á boltanum, þetta var frábært,“ segir Heimir.
Ítarlegt viðtal við Heimi er í spilaranum.