Samkvæmt nýrri úttekt U.S. News and World Report þá eru sjö lönd þar sem hægt er að framfleyta sér fyrir 1.000 dollara á mánuði en það svarar til 138.000 íslenskra króna. CNBC skýrir frá þessu.
Fram kemur að löndin hafi verið valin út frá samtölum við ferðasérfræðinga sem hafa búið og starfað í meira en 50 löndum og rannsakað framfærslukostnað um allan heim.
Löndin sjö sem þykja álitleg vegna lágs framfærslukostnaðar eru: Malasía Mexíkó, Panama, Filippseyjar, Portúgal, Taíland og Víetnam.
Portúgal hefur lengi verið vinsælt meðal ellilífeyrisþega því framfærslukostnaðurinn þar er mun lægri en í öðrum Evrópuríkjum að sögn CNBC.
Samkvæmt tölum frá fyrirtækinu Smartasset er 29% ódýrara að búa í Portúgal en Bandaríkjunum ef húsnæðiskostnaður er ekki tekinn með í útreikninginn.
Í Panama er að meðaltali 35% ódýrara að búa en í Bandaríkjunum og húsaleiga er að meðaltali 52% lægri þar.
Það er rétt að hafa í huga að í mörgum löndum þarf fólk að skila inn hreinu sakavottorði, heilbrigðistryggingu og staðfestingu á tekjum upp á sem nemur að minnsta kosti 138.000 íslenskum krónum á mánuði.