Flestir fullorðnir þurfa sjö til níu klukkustunda svefn á sólarhring. Stress, hjónabandsvandræði eða samfélagsmiðlar geta haldið vöku fyrir fólki en það geta maturinn og drykkurinn, sem neytt er síðustu klukkustundirnar fyrir svefninn, einnig gert.
Ef þú átt í vandræðum með að sofna á kvöldin þá er ólíklegt að það geri þér auðveldara fyrir ef þú færð þér snarl rétt áður en þú ferð í rúmið en það getur einnig verið að það sem þú borðar og drekkur síðustu klukkustundirnar fyrir svefninn komi í veg fyrir að þú getir sofnað.
Daneil Herman, næringarfræðingur, ræddi við Metro um hvaða matvæli sé skynsamlegt að forðast þegar líður að háttatíma. Hann sagði góða hugmynd að fylgjast vel með líkamanum og finna út hvaða matvæli geta gert fólki lífið leitt, sérstaklega ef þau kalla fram einhver viðbrögð.
Hann sagði að almennt séð sé það góð hugmynd að forðast þungar máltíðir þegar líður að háttatíma og það sama eigi við um að fá sér eitthvað að borða eftir kvöldmat, það sé best að sleppa því.
En hann taldi einnig upp ýmis matvæli sem geta truflað nætursvefninn.
Súkkulaði er það á meðal og ergir það eflaust þá sem kunna vel að meta súkkulaði. Herman sagði að best sé að sleppa því að borða súkkulaði að kvöldi til ef fólk vill geta sofið. Ástæðan er að í súkkulaði er koffín og önnur efni sem geta örvað framleiðslu magasýru.
Laukur og hvítlaukur er einnig á listanum því báðar tegundirnar geta aukið framleiðslu magasýru sem veldur bakflæði.
Appelsínur og aðrir sítrusávextir innihalda sýru sem getur valdið bakflæði. Það er því best að ná neyta ráðlags dagsskammts af ávöxtum fyrri hluta dagsins.
Kolsýrðir drykkir geta aukið þrýsting í maganum og valdið uppþembu sem og bakflæði. Það er því bara best að fá sér vatnsglas ef þorsti leitar á að kvöldi.
Sterkur matur getur valdið magaverkjum og aukið sýruframleiðsluna í maganum og þannig gert fólki erfitt fyrir við að sofna.
Það getur virst góð hugmynd að fá sér smávegis áfengi fyrir svefninn, kannski eitt rauðvínsglas, til að slaka betur á. En áfengið hefur áhrif á svefnmynstrið og truflað nætursvefninn því það eykur sýruframleiðsluna í maganum og getur valdið bakflæði.
Kaffi og te innihalda koffín og eru því örvandi drykkir. Það er því ekki skynsamlegt að drekka kaffi eða te fyrir háttinn að sögn Herman.