Sky News skýrir frá þessu og segir að Intutive Machines, sem er bandarískt fyrirtæki sem á geimfarið, segi að ljósmyndirnar og gögnin geri því kleift að endurgera lendinguna til að öðlast skilning á af hverju geimfarið lagðist á hliðina.
Fyrirtækið segir einnig að hægt verði að ná samband við geimfarið á nýjan leik eftir 2-3 vikur þegar sól rís á nýjan leik en eins og er, er dimmt á svæðinu þar sem það er. Hins vegar er ekki vitað hvort rafhlöður og rafbúnaður geimfarsins lifir hinn mikla kulda á svæðinu af en frostið fer niður fyrir 200 gráður.
Nýju myndirnar sýna að einn fótur þess er brotinn og að steinar og ryk fuku í burtu undan öflugum mótor geimfarsins. Myndirnar sýna einnig að geimfarið liggur á hliðinni um 500 metraf frá gíg einum. Telja vísindamenn að gígurinn sé um tveggja milljarða ára gamall.
Gögn frá geimfarinu sýna að það lenti upprétt en lagðist síðan á hliðina í smávegis halla. Um borð í því eru sex vísindatæki frá Bandarísku geimferðastofnuninni NASA sem greiddi Intutive Machines 118 milljónir dollara fyrir að flytja þau til tunglsins.