Í öðrum verslunum hefur sala á kælitöskum, sólardrifnum útvarpstækjum og plastbrúsum aukist. Sífellt fleiri Danir eru farnir að undirbúa sig undir krísuástand og jafnvel stríð. Þetta má allt rekja til Rússa og innrásar þeirra í Úkraínu og ágengni þeirra og fjandskapar í garð Vesturlanda.
Áður hafa sænsk og norsk yfirvöld sagt að ekki sé útilokað að til stríðs komi. Danski varnarmálaráðherrann hefur heldur ekki útilokað það.
Nokkrir yfirmenn í danska almannavarnarkerfinu hafa stigið fram og hvatt fólk til að undirbúa sig undir krísuástand með því að koma sér upp matar- og vatnsbirgðum til að minnsta kosti sjö daga. Yfirvöld hafa þó ekki komið með neinar slíkar ráðleggingar.
En margir hafa áhyggjur af stöðunni sem uppi er. Fæstir hafa áhyggjur af að til stríðs komi, frekar að Rússar muni gera netárásir á innviði á borð við raforku- og vatnskerfið eða eitthvað slíkt. Vitað er að ef raforkukerfið lamast dögum saman mun það hafa gríðarleg áhrif á allt samfélagið. Ekki verður hægt að dæla eldsneyti, greiðslumiðlunarkerfið mun liggja niðri og fjarskipti og netsamband lamast.
Það er þetta sem fólk er að undirbúa sig undir.
Mikil aukning hefur orðið á meðlimum svokallaðra „Preppershópa“ á Facebook en þar deilir upplýsingum og miðlar af þekkingu sinni, sem er auðvitað mismikil og misgáfuleg.
Líklegt má teljast að yfirvöld fari að gefa út leiðbeiningar til dansks almennings um hvað sé gott að eiga ef til neyðarástands kemur því sífellt fleiri stjórnmálamenn, embættismenn og fjölmiðlar kalla eftir slíkum leiðbeiningum.