Umbra – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins hóf í september á síðasta ári samstarf við einkafyrirtækið ONE ehf. um að skaffa bílstjóra í afleysingar fyrir ráðherra þjóðarinnar. Þetta kemur fram í svari Viktors Jens Sigfússonar, framkvæmdastjóra Umbru við fyrirspurn DV.
„ONE ehf. útvegar Umbru bílstjóra til afleysinga þegar ráðherrabílstjórar forfallast eða verkefnastaða eða álag er slíkt að nauðsynlegt er fá aðstoð bílstjóra til afleysinga eða í sérverkefni,“ segir Viktor.
Stærsti eigandi ONE ehf. er Höldur ehf. sem á og rekur Bílaleigu Akureyrar, með 55% hlut en aðrir eigendur eru Gottskálk Þorsteinn Ágústsson, Haukur Bent Sigmarsson og Sigurður Jóhann Stefánsson sem allir hafa starfað hjá öryggisfyrirtækjum hérlendis, Öryggismiðstöðinni og Securitas, og komið þar að lúxusakstri og sérhæfðri öryggisgæslu.
Þjónustan, sem ONE ehf. er gert að sinna, var ekki boðin út en ástæðan var skortur á samkeppni. „Þegar skoðuð voru þau akstursfyrirtæki sem eru að sinna álíka akstri kom í ljós að ONE ehf. er eina akstursþjónustu fyrirtækið á Íslandi sem er með leyfi frá Ríkislögreglustjóra til þess að sinna öryggisgæslu. Hæfi hvers bílstjóra var síðan metið sérstaklega í samvinnu við ríkislögreglustjóra og viðkomandi fengu nauðsynlega þjálfun til að sinna afleysingum við ráðherraakstur,“ segir Viktor Jens.
Samningur Umbru við fyrirtækið er til fimm ára en er uppsegjanlegur með eins mánaðar fyrirvara.
Eins og áður segir hófst samstarfið í september á síðasta ári en á því almanaksári keypti Umbra þjónustu af ONE ehf fyrir um 13,6 milljónir króna. Það sem af er árinu 2024 hefur Umra síðan keypt þjónustu fyrir 2,8 milljónir króna af einkafyrirtækinu.