Hann byrjar grein sína á skemmtilegri frásögn af Sævari Helga þeirra Bandaríkjamanna, Neil deGrasse Tyson, sem freistaði þess eitt sinn að útskýra hversu auðugur Bill Gates er.
„Tyson sagðist sjálfur hafa það þokkalegt, með sitt hús, bíl og öruggu vinnu. Á rölti sínu um götur New York-borgar myndi hann sennilega ganga fram hjá einu senti sem lægi þar í vegarkanti og sama gilti um fimm senta skilding. Þótt um fría peninga væri að ræða væru þeir ekki fyrirhafnarinnar virði. Væri hann á hraðferð léti hann tíu sentin sömuleiðis vera en 25 sentum þyrfti hann þó að beygja sig eftir og stinga í vasann. Tyson leit þá á auð Gates, sem þarna var ríkastur manna. Hvað ætli þyrfti til svo hann staldraði við og tæki peninga upp af götunni? 25 sentin hans Tysons jafngiltu 45.000 dollurum hjá Gates, eða rúmum sex milljónum króna.“
Björn segir að honum hafi verið hugsað til þessa á dögunum þegar hann kom sér fyrir í sófanum heima og naut þess að lesa fyrrnefnda ritgerð Seðlabankans um viðbótarlífeyrissparnað.
„Ég ætlaði varla að trúa eigin augum. Getur það verið að stór hluti íbúa hér á landi gangi ekki bara framhjá því klinki sem það sér heldur seðlum sömuleiðis?“
Björn segir að höfundarnir hafi tekið síst of sterklega til orða þegar þau sögðu að þrátt fyrir mikla hvata til þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði kæmi á óvart hve stór hluti þeirra sem geta tekið þátt gerðu það ekki.
„Æsifréttastíll er svo sem ekki siður þar á bæ. Niðurstöðurnar fengu mig þó til að svelgjast á og rúmlega það, því um er að ræða meiriháttar kjarabót sem engin málefnaleg ástæða ætti að vera til að afþakka,“ segir Björn og bætir við að tveir þjóðfélagshópar hafi vakið sérstaka athygli þegar rýnt er í tölfræðina.
„Annars vegar vekur furðu hve þátttaka fer minnkandi eftir sextugt, þótt fólk vinni áfram fulla vinnu. Hins vegar virðist kerfið nær alfarið hafa farið framhjá erlendu starfsfólki og greiða aðeins rétt um 30% þeirra í fullri vinnu í kerfið og innan við 10% þeirra sem vinna hlutastarf. Er þetta samanborið við tæplega 80% þátttöku Íslendinga í fullu starfi.“
Í grein sinni bendir hann á að hin ýmsu fríðindi fylgi viðbótarlífeyrissparnaði og þeim sé ætlað að tryggja sem mesta þátttöku. Þannig er enginn fjármagnstekjuskattur greiddur af ávöxtun. Þá segir Björn að hún hafi engin áhrif á greiðslur almannatrygginga, ekki frekar en úttekt, en allur annar lífeyrir skerðir ef hann er sóttur samhliða greiðslum.
„Sparnaðurinn er lögvarinn við gjaldþrot, erfist að fullu og án erfðafjárskatts til barna og maka, ávöxtun hans er að miklu leyti frjáls og úttektarfyrirkomulag sömuleiðis. Þá má sækja hann skattfrjálst sem útborgun við kaup á fyrstu íbúð eða við skattfrjálsa innborgun á höfuðstól,“ segir Björn sem segir að þyngst vegi þó mótframlag vinnuveitanda sem að lágmarki nemur tveimur prósentum af launum.
„Heildarlaun fólks í fullu starfi hér á landi árið 2022 voru að meðaltali 871.000 kr. á mánuði og jafngildir mótframlagið þar rúmum 17.000 kr. Ef sú launauppbót er ekki sótt er gengið framhjá 500 króna seðli, 50 kr. peningi og þremur tíköllum hvern einasta dag. Þar sem úttekt er frjáls eftir sextugt hlýtur minnkandi þátttaka fólks á þeim aldri að vekja furðu, enda væri með greiðslu í viðbótarlífeyrissparnað hægt að sækja allt 100% örugga, 100% ávöxtun á einum degi og sækja fjármunina strax, ef áhugi er á því. Ég efast um að annar eins ávöxtunarkostur sé í boði,“ segir Björn í grein sinni.
Hann segir að þetta sé ekki skárra hjá yngra fólki.
„Náist þó ekki nema 3,5% raunávöxtun frá 25 ára aldri til sextugs safnast aðeins með mótframlaginu rúmlega 14 milljónir króna (fyrir skatt og m.v. fastar tekjur). Með 6% raunávöxtun, sem ekki ætti að vera óraunhæft sé fjárfest á hlutabréfamarkaði, nær fjárhæðin 24 milljónum. Við höfum þetta kannski í huga næst þegar við hlæjum að tilhugsuninni um Bill Gates strunsandi framhjá öllu undir 6 milljónum.“