Live Science skýrir frá þessu og bendir á að frá ársbyrjun hafi verið miklir þurrkar í borginni. Til að reyna að spara vatn hafa yfirvöld gripið til þess ráðs að takmarka aðgang margra borgarbúa að vatni við aðeins eina klukkustund á nokkurra daga fresti.
Mexíkóborg er ein fjölmennasta borg heims en þar búa um 22 milljónir manna.
Blanda ýmissa þátta gerir að verkum að vatnsskortur er farinn að gera vart við sig. Meðal þessara þátta eru minni úrkoma, hærri hiti, lekar vatnslagnir og útþensla borgarinnar.
Sérfræðingar segja að ef ekki verði gripið til harðra aðgerða þá sé ekki langt í að borgin standi frammi fyrir því að vatnsbirgðirnar verði á þrotum.
Um 60% af vatni borgarinnar kemur úr neðanjarðarlind og restinni er dælt langar vegalengdir til borgarinnar. Of mikið hefur verið gengið á neðanjarðarlindina og það hefur valdið því að landið hefur sigið mikið síðan 1950. Um 40% af vatninu, sem er dælt til borgarinnar, glatast á leiðinni þangað.