Konan var stödd á veitingastað í Lahore þegar fólk móðgaðist vegna texta á arabísku á kjól hennar. Á honum stóð „halwa“ sem þýðir „fallegt“ á arabísku en múgurinn misskildi þetta sem vers úr Kóraninum.
Á myndbandsupptökum sést fólk hrópa á konuna að hún eigi að fara úr kjólnum og sumir heyrast kyrja að það eigi að afhöfða þá sem gerast sekir um guðlast.
Dauðarefsing liggur við guðlasti í Pakistan og dæmi eru um að fólk hafi verið tekið af lífi af æstum múg áður en mál þeirra kom fyrir dóm.
Syeda Shehrbano, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Lahore, kom á vettvang og greip inn í og bað æstan múginn um að „treysta okkur“. Hún huldi konuna með svörtum slopp og gylltum höfuðklút og ruddi sér síðan leið með konuna í gegnum æstan múginn. Henni tókst að koma konunni á brott og í öruggt skjól á lögreglustöð. Þar voru fræðimenn og klerkar, sem höfðu sumir tekið þátt í að gera aðsúg að konunni, fengnir til að skoða kjól hennar. Niðurstaða þeirra var að engin vers úr Kóraninum væru á honum.
Usman Anwar, lögreglustjóri í Punjab, sagði að Shehrbano hafi „stofnað lífi sínu í hættu“ til að bjarga konunni.
Pakistanski herinn sæmdi Shehrbano æðstu orðunni, sem löggæslufólki getur hlotnast, við athöfn í Rawalpindi og voru þau ummæli látin falla að hún væri „óttalaus“.