fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Kallað eftir óháðri úttekt á stafræna-partýinu í Borgartúni og meirihlutinn bregst við gagnrýninni

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 5. mars 2024 18:22

Barnaverndarnefnd, Höfðatorg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sérstök umræða var á fundi borgarstjórnar í dag um ávinning stafrænnar umbreytingar fyrir borgarbúa. Málið var sett á dagskrá að beiðni meirihlutans sem taldi ljóst að upplýsa þyrfti um ávinning í ljósi gagnrýni á verkefnið. Undir liðnum lagði borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Björn Gíslason, fram tillögu um að óháðum sérfræðing yrði falið að gera heildstæða úttekt á verkefninu og greina þar fjárhagslega og tæknilega útkomu, og bera saman við aðra kosti sem borginni stóðu til boða til að ná markmiði verkefnisins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins segir reksturinn í kringum umbreytingarverkefnið einkennast af „startup-kúltúr“. 

Fjöldi lausna sem auðvelda Reykvíkingum lífið

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, leiddi umræðuna og fór þar yfir lausnir sem hafa komið úr starfi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs eða eru í vinnslu. Sem dæmi megi nefna ábendingagátt borgarinnar, leikskólareikni, sorphirðudagatal, Mínar síður, gagnahlaðborðið, Hverfið mitt og margt fleira.

Í verkefninu Betri borg fyrir börn hafi verið keyrðar í gegn nauðsynlegar breytingar vegna nýrrar farsældarlaga. Annað kerfi sé Búi sem sé heilrænt kerfi sem haldi utan um mál íbúa. Fjöldi nýrra umsýslu- og umsóknarkerfa hafi verið þróaður, keyptur inn og innleiddur hjá borginni. Þessi kerfi gegna mismunandi hlutverki en eigi það sameiginlegt að veita hraðari og betri þjónustu, minnka handavinnu og umsýslu fyrir starfsfólk, draga úr pappírsnotkun og bjóða upp á einfalt og samræmt viðmót. Annað dæmi sé kerfið Dala Care sem snýr að heimaþjónustu og búsetukerfi. Það kerfi auki öryggi og eftirlit með þjónustu og auðveldi borginni að bregðast við þörfum notenda, breytingum í lífi fólks og til að fyrirbyggja þjónusturof. Enn eitt kerfið kallist Veita sem sé umsýslukerfi fyrir fjárhagsaðstoð og akstursþjónustu. Svo megi nefna nýtt kerfi utan um umsóknir á félagslegu húsnæði, kerfi sem auðveldar umsókn um fjárhagsaðstoð, bætt utanumhald um umsóknir í skóla, leikskólareiknirinn sem sýni stöðu á biðlistum, rafræn byggingarleyfi, veflausn sem sýni yfirlit yfir staðsetningar byggingarverkefna, framkvæmdasjá, endurbætt vefsvæði Reykjavíkurborgar, endurbætt lóðaumsóknarkerfi,  ný styrkjagátt og svo fjöldi samstarfsverkefna með Stafrænu Íslandi og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Kom fram í málatilbúnaði meirihlutans á fundinum að tiltekinn borgarfulltrúi minnihlutans hefði sértök horn í síðu Þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON). Ekki fer á milli mála að  þar er vísað til fulltrúa Flokks fólksins, Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur, sem hefur ítrekað gert athugasemdir við rekstur sviðsins.

Uppskrúfaðar kynningar og stöðugt partý

Kolbrún skrifaði einmitt í dag grein ásamt Einari Sveinbirni Guðmundssyni, kerfisfræðing, í Morgunblaðinu. Þar velta þau fram þeirri spurningu hvort ekki sé kominn tími til að staldra við og meta árangur ÞON á þessum fjórum árum sem það hefur verið starfrækt. Sviðið hafi fengið ævintýralegar fjárveitingar en tilbúnar afurðir séu undir væntingum. Telja þau að meirihlutinn í borginni sé blindur af meðvirkni og neiti að horfast í augu við að sviðið fari með fjármagn af mikilli lausung og ábyrgðarleysi.

„Tugum milljóna hefur verið eytt í dýran húsbúnað, dýran tækjakost, skemmtanaviðburði með tilheyrandi veitingum og kaup á erlendri ráðgjöf sem óljóst er hvernig hefur skilað sér í verkefnin“

Borgarbúum sé boðið upp á uppskrúfaðar kynningar þar sem fullyrt sé að árangur ÞON sé á heimsmælikvarða. Slíkum fullyrðingum fylgi þó engin rök.

„Það er ömurlegt að horfa upp á alla þá sóun og bruðl sem átt hefur sér stað á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Flokkur fólksins hefur reynt að halda uppi eftirliti og aðhaldi og einnig bent innri endurskoðun á mikilvægi þess að gera úttekt á sviðinu því hér er um gríðarlegt fjármagn að ræða. Starsfmannavelta sviðsins er sér kapítuli út af fyrir sig. Það liggur við að það sé daglegt brauð að fólk sé ráðið og rekið – nú síðast einn af skrifstofustjórum sviðsins sem rekinn var á meðan viðkomandi var í veikindaleyfi.“

Reykjavik.com

Þau Kolbrún og Einar segja að ÞON leggi áherslu á að þróa eigin lausnir, jafnvel þó viðeigandi lausnir séu nú þegar komnar á markað. Á meðan sé borgarbúum boðið upp á mælaborð og viðburðardagatöl, en þurfi að bíða eftir þeim lausnum sem eigi raunverulega eftir að koma að gagni.

„Starfrænni vegferð borgarinnar hefur verið líkt við fyrirbærið „startup culture“ sem skilgreinist m.a. þannig að fólk kaupir sig inn í umhverfið og ásýndina hvort sem það er verið að skila vöru eða ekki. Dæmigerður forstjóri slíks fyrirtækis kjaftar sig inn á fólk og tekst að selja fólki einhverja draumsýn. Þjónustu- og nýsköpunarsvið minnir sannarlega á hugmyndafræði þeirra tegunda fyrirtækja sem leggja upp með áætlanir sem alls óvíst er að muni verða að veruleika og þar sem farið er með fjármagn eins og um áhættufjármagn sé að ræða.

Fulltrúar Flokks fólksins eru ekki þeir einu sem gagnrýnt hafa framkvæmd stafrænnar umbreytingar borgarinnar, heldur hafa Samtök iðnaðarins og margir fleiri s.s. einkafyrirtæki og einstaklingar gert það einnig. Flokkur fólksins fær daglegar ábendingar frá þeim sem þekkja til þessara mála hjá borginni og hefur gjörsamlega blöskrað bruðlið. Opinberir fjármunir eins og skattur og útsvar, eiga aldrei að vera meðhöndlaðir af áhættusæknum stjórnendum eins og hvert annað áhættufjármagn sem ekkert er víst að muni skila sér í verðmætum.“

Áður en farið var í fjárfestingaverkefnið um stafræna umbreytingu og svið Þjónustu- og nýsköpunar var komið á laggirnar var lögð fram greining Capacent á rekstri upplýsingatækniþjónustu borgarinnar. Þessi skýrsla var bundin trúnaði með þeim rökum að þar væri að finna viðkvæmar upplýsingar um upplýsingatækniinnviði borgarinnar sem varði öryggismál og séu viðskiptalegs eðlis og til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu útboða. DV hefur óskað eftir þessari skýrslu með þeim rökum að nú séu fjögur ár liðin og forsendur trúnaðar eigi ekki lengur við. Segir í svari frá borginni að málið sé í skoðun en það taki tíma að aflétta trúnaði.

Heimildarmaður DV bergmálar ásökun Kolbrúnar og Einars um sprotafyrirtækjamenningu ÞON, en þar kenni ýmissa grasa á borð við grjónapúða, opið vinnusvæði, vínstofu starfsmanna og fleira beint úr handbók Dot-Com bólunnar víðfrægu, þegar sprotafyrirtæki urðu um aldamótin alræmd fyrir að reka vinnustöðvar eins og félagsmiðstöð. Þar sé rekin menning sem starfsmenn annarra sviða borgarinnar, einkum þeirra sem ekki hafa starfsstöðvar í Ráðhúsinu eða Borgartúni, kannist hreinlega ekkert við. Til dæmis hafi ÞON eitt sinn varið 150 þúsund krónum í mat og drykk á Kjarvalsstofu til að kveðja starfsmann, sem standi ekki öllum vinnustöðum til boða sem margar hverjar þurfi að hafa mikið fyrir að fá hverja krónu.

Fundur borgarstjórnar er yfirstandandi og ekki er búið að taka afstöðu til tillögu Björns Gíslasonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um óháða úttekt á starfsemi ÞON. Kolbrún hefur eins kallað eftir úttekt innri endurskoðunar, en samkvæmt heimildum DV barst innri endurskoðun á dögunum fjöldi ábendinga sem varða rekstur sviðsins.

Uppfært: Við lok fundar borgarstjórnar var gengið til kosninga um hvort taka ætti tillögur Björns Gíslasonar, um óháða úttekt, fyrir. Allir borgarfulltrúar meirihlutans lögðust gegn því á meðan allir borgarfulltrúar minnihlutans, þvert á flokka, voru því hlynntir. Tillagan var því felld með 13 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri græna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“
Fréttir
Í gær

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp