Áhugaverður úrskurður féll í Landsrétti þann 27. febrúar síðastliðinn. Þar felldi Landsréttur úr gildi ákvörðun skiptastjóra dánarbús frá 21. mars 2023, þess efnis að eignir dánarbúsins í Taílandi komi ekki til álita við skipti þess hér á landi. Ógilti Landsréttur þar með úrskurð héraðsdóms þess efnis að ákvörðun skiptastjóra ætti að standa óbreytt.
Deilan stendur á milli ekkju mannsins og ungs sonar þeirra, sem er fæddur 2011, annars vegar, og hins vegar tveggja uppkominna barna mannsins. Maðurinn sem lést árið 2022 hafði flutt til Taílands og gifst þar árið 2005. Eldri börnin hans telja að hann hafi fært meira en 160 milljónir króna til Taílands og keypt þar hús, jarðir og fleira.
Erfðamálið fór fyrir Hæstarétt í fyrra með öðrum vinkli þar sem eldri börn mannsins sögðu föður þeirra hafa sakað seinni eiginkonu sína um hjúskaparbrot og staðhæft að þau stunduðu ekki kynlíf. Kröfðust systkinin þess að hálfbróðir þeirra, sonur föður þeirra og seinni eiginkonu þyrfti að undirgangast mannerfðafræðilega rannsókn. Landsréttur féllst á kröfuna, en Hæstiréttur ekki.
Sjá einnig: Tólf ára drengur þarf ekki að undirgangast DNA rannsókn – Móðir sökuð um framhjáhald
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2022 var dánarbú mannsins tekið til opinberra skipta, að kröfu eldri barnanna, og lögmaður, sem er ónefnd kona, skipuð til að fara með skiptastjórn í búinu.
Eldri börn mannsins segjast hafa verið í góðum samskiptum við hann fyrir andlát hans. Þau hafi bæði farið til Taílands og gist þar í húsi föður þeirra og konu hans. Hafi faðir þeirra farið með þeim í skoðunarferðir og sýnt þeim ræktarlönd í eigu hjónanna. Einnig hafi hann sýnt þeim ýmis gögn um miklar eigur sínar í Taílandi og tekjur af ræktunarafurðum.
Í úrskurði sínum sagðist skiptastjóri ekki telja sig hæfa til að taka ákvarðanir varðandi skiptingu eigna í Taílandi, úthlutun þeirra og til öflunar upplýsinga um tilvist eða verðmat eigna sem kunni að koma til arfs eftir manninn þar í landi.
Gegn andmælum ekkjunnar og ungs sonar hennar verði ekki lagt í kostnaðarsamar aðgerðir í þeim efnum. Að mati skiptastjóra heyri það undir skiptastjóra þar í landi.
Á þessi rök féllst héraðsdómur en ekki Landsréttur. Telur dómurinn, með tilliti til dómafordæma úr Hæstarétti, að ekki sé hægt að álykta á annan veg en að skipti á dánarbúinu skuli ná til allra eigna óháð því hvort þær eru á Íslandi eða í Taílandi. Hefur Landsréttur lagt það fyrir skiptastjórann að hún taki að nýju til umfjöllunar á skiptafundi hvort ráðast eigi í könnun á eignum mannsins í Taílandi.
Landsréttur fellir þar með úr gildi ákvörðun skiptastjóra um að eignir mannsins í Taílandi komi ekki til álita við skipti á dánarbúinu.
Úrskurðinn má lesa hér.