fbpx
Miðvikudagur 30.október 2024
Pressan

Einn alræmdasti glæpamaður Haítí er kallaður „Barbecue“ en ekki ber öllum saman um ástæður þess

Pressan
Þriðjudaginn 5. mars 2024 21:30

Jimmy Cherizier, eða Grillarinn eins og hann er kallaður.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hálfgerð skálmöld ríkir á Haítí þar sem glæpahópar vaða uppi og hafa í raun stjórn á höfuðborg landsins, Port-au-Prince. Mannrán og grimmileg ofbeldisverk eru daglegt brauð og nú síðast um helgina var gert áhlaup á stærstu fangelsi landsins þar sem mörg þúsund fangar sluppu úr haldi.

Einn alræmdasti glæpaforingi Haítí um þessar mundir heitir Jimmy Cherizier og gengur hann undir viðurnefninu „Barbecue“ eða „Grillarinn“. Að sögn kemur það til vegna þess að Jimmy hefur gerst sekur um grimmileg morð þar sem hann brennir fórnarlömb sín áður en hann lætur dýr éta líkin. Sjálfur hefur hann þó sagt að viðurnefnið sé eldra og megi rekja til þess tíma þegar móðir hans seldi grillaðan kjúkling á götum úti.

Hvað sem því líður er ljóst að Jimmy hefur mörg mannslíf á samviskunni. Jimmy þessi er einmitt sagður hafa verið sá sem fyrirskipaði áhlaup á tvö stærstu fangelsi landsins um helgina. Talið er að um þrjú þúsund hættulegir fangar hafi sloppið úr haldi.

Spilltur lögregluþjónn

Daily Star varpaði ljósi á þennan alræmda glæpaforingja sem er fæddur annað hvort árið 1976 eða 1977. Hann ólst upp í stórum hópi systkina og missti föður sinn þegar hann var fimm ára.

Áður en hann leiddist út á braut glæpa starfaði hann sem lögregluþjónn hjá ríkislögreglunni á Haítí. Þar kynntist hann glæpum vel og um tíma starfaði hann bæði sem lögregluþjónn og glæpaforingi.

Eftir að hafa kynnst lífi glæpamannsins betur stofnaði samtök þar sem meðal annars var lagt á ráðin um grimmileg morð. Hann er til dæmis sagður hafa fyrirskipað fjöldamorð í La Saline-fátækrahverfinu árið 2018 þar sem 71 lést og yfir 400 heimili voru brennd til kaldra kola. Hann er sagður hafa fyrirskipað fleiri fjöldamorð; til dæmis í Grande Ravine árið 2017 þar sem níu voru myrtir.

Þegar upp komst um skuggalegt hliðarstarf hans árið 2018 var hann rekinn úr lögreglunni.

Betur vopnum búnir en lögreglan

Jimmy tilkynnti um stofnun glæpasamtakanna G9 árið 2020, en um er að ræða einskonar regnhlífarsamtök sem eru yfir minni gengjum á Haítí. Þar er Jimmy leiðtogi og er fullyrt að liðsmenn hópsins séu betur vopnum búnir en sjálf lögreglan á Haítí sem virðist mega síns lítils.

Jimmy segir að samtökin hafi verið stofnuð í þeim tilgangi að koma ríkum ráðamönnum frá völdum og bæta hag þeirra verst settu í landinu. Ýmsir efast þó um göfugan tilgang hans ef marka má frásagnir af morðum og limlestingum á óvinum hans.

Bandarísk yfirvöld halda því fram fullum fetum að Jimmy hafi fyrirskipað og tekið þátt í La Saline-fjöldamorðinu árið 2018. Þar voru fórnarlömb, meðal annars börn, dregin út af heimilum sínum og tekin af lífi. Líkin voru svo brennd, aflimuð og gefin dýrum. Árið 2022 lokuðu G9-samtökin fyrir aðgang að olíubirgðastöð landsins sem hafði mikil og neikvæð áhrif á efnahag landsins sem þegar stóð á brauðfótum.

Vilja koma forsetanum frá

Jovenal Moise, fyrrverandi forseti Haítí, er sagður hafa lokað augunum fyrir uppgangi Jimmy og fylgisveina hans. Síðan Jovenal var myrtur árið 2021 og Ariel Henry tók við sem forsætisráðherra og forseti hefur krísan aukist dag frá degi.

Segja má að allt hafi endanlega farið í bál og brand þegar Ariel Henry neitaði að fara frá völdum og halda kosningar í febrúar síðastliðnum. Hefur Jimmy kallað eftir því að glæpagengi landsins sameinist um að koma Ariel frá völdum, hvað sem það kostar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Gerðu nýja og óvænta uppgötvun um mannætuljón

Gerðu nýja og óvænta uppgötvun um mannætuljón
Pressan
Fyrir 2 dögum

Sólarhringurinn var eitt sinn tveimur klukkustundum lengri – Það gæti hafa valdið merkum atburði

Sólarhringurinn var eitt sinn tveimur klukkustundum lengri – Það gæti hafa valdið merkum atburði
Pressan
Fyrir 3 dögum

Móðir gaf aldrei upp vonina eftir að sonur hennar hvarf í þjóðgarði – Síðan gerðist kraftaverkið

Móðir gaf aldrei upp vonina eftir að sonur hennar hvarf í þjóðgarði – Síðan gerðist kraftaverkið
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona marga kaffibolla þarftu að drekka daglega til að draga úr líkunum á hjartasjúkdómum

Svona marga kaffibolla þarftu að drekka daglega til að draga úr líkunum á hjartasjúkdómum