Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, verður gestur í sjónvarpsþætti 433.is í kvöld klukkan 20:30.
Sigurður Bjartur Hallsson skrifaði undir hjá FH í gær og kaupir félagið sóknarmanninn frá KR.
Sigurður mætti á sína fyrstu æfingu með FH í gær og fer í æfingaferð með liðinu á föstudag.
„Það er klárt, var klárað í gær og mætti á æfingu í gær. Það er ekkert launungarmál að við höfum viljað styrkja framlínuna hjá okkur,“ segir Heimir í sjónvarpsþætti kvöldsins.
Heimir segir að FH hafi vantað aukna breidd í sóknarleikinn.
„Við höfum ekki verið með mikla breidd, ég hef alltaf verið hrifin af Sigga sem leikmanni þegar hann hefur verið í KR-treyjunni. Stóð sig líka vel hjá Grindavík.“
„Hann kemur með góð element fyrir okkur, ég býst við því að hann eigi eftir að standa sig vel í FH-treyjunni.“
Heimir segist hafa lesið það á netinu að Sigurður væri á förum frá KR en þá var hann að fara að semja við Fylki. Hann hafði strax samband við Davíð Þór Viðarsson og lét hann vaða í málið.
„Ég sá þessa frétt á Fótbolta.net, þá hringdi ég strax í yfirmann knattspyrnumála og sagði honum að við færum strax í þetta mál að fullum þunga.“