Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Öldung hf, rekstraraðila hjúkrunarheimilanna Sóltúns og Sólvangs, til að greiða konu sem starfaði þar yfir sex milljónir króna í bætur vegna hryggilegs atviks sem kom upp á öðru hvoru heimilanna.
Atvikið átti sér stað sumarið 2019. Kona var að aðstoða einn vistmann heimilisins við að ganga að matarborði í hádegismatinn. Vistmaðurinn var með svokallaða lewy body heilabilun og vegna sjúkdómsástands síns átti hann það til að setjast niður þrátt fyrir að ekki væri stóll til staðar. Mun það hafa gerst oft. Þessi vistmaður er hávaxinn, tæplega tveir metrar á hæð. Þarna mun vistmaðurinn hafa skyndilega ákveðið að setjast niður á leiðinni að matarborðinu, þar sem enginn stóll var undir honum. Konan reyndi að koma í veg fyrir þetta og tók í buxnastreng mannsins og fór niður í hálfa hnébeygjustöðu til að aftra því að maðurinn félli. Þetta varð ti þess að maðurinn lenti á fæti konunnar og fékk hún slink á bakið. Fann konan strax fyrir eymslum í bakinu sem áttu bara eftir að versna.
Varð konan fyrir miklu vinnutapi vegna þessara meiðsla og var metin með 8% orörku. Hún krafði Öldung hf. um bætur á grundvelli ákvæðis 7.1.6. í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Eflingar. Í þessu ákvæði segir að þegar starfsmaður sinnir einstaklingi, sem að takmörkuðu eða jafnvel engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum, eigi starfsmaðurinn rétt á að beina skaðabótakröfu sinni vegna líkams- eða munatjóns að launagreiðanda.
Öldungur vildi ekki greiða konunni bætur og sagði að ákvæðið ætti ekki við í þessu tilviki. Taldi Öldungur að konan hefði átt að leyfa gamla manninum að setjast niður þó að enginn stóll væri undir honum. Slík atvik hefðu verið vel þekkt varðandi þennan tiltekna einstakling og hefðu ekki leitt til skaða áður. Um þetta segir í texta dómsins:
„Þá telji stefndi það eðlilega túlkun kjarasamningsákvæðisins að leggja beri mælikvarða á borð við þann sem saknæmisreglan geri á háttsemi íbúans og eftir atvikum stefnanda. Háttsemi íbúans yrði ekki metin honum til sakar væri ástand hans þannig að hann gæti verið ábyrgur gerða sinna. Felist enda engin sérstök hætta í því fyrir aðra þótt íbúi freisti þess að setjast þar sem enginn stóll sé fyrir. Viðkomandi aðili hafi viðhaft sömu háttsemi áður, án þess að nokkrum yrði meint af.“
Segir Öldungur að konan hafi ekki brugðist við í samræmi við leiðbeiningar og þjálfun en hún hafi sótt líkamsbeitingarnámskeið og því vitað að ekki hafi verið ætlast til þess að starfsfólk legði sig í hættu til að bjarga sjúklingum.
Dómari taldi ósannað að konan hefði fengið þær leiðbeiningar sem Öldungur tiltekur, þ.e. að hún ætti ekki að leggja sig í hættu við að bjarga sjúklingum. Sjálf neitaði hún því að hún hefði sótt nýliðanámskeið og taldi dómari ósannað, gegn neitun hennar að hún hefði gert það. Voru engin gögn sem það sanna lögð fyrir dóminn. Ekkert hafi heldur komið fram sem bendi til að hún hafi fengið slík fyrirmæli, en slysið átti sér stað stuttu eftir að konan hóf störf á hjúkrunarheimilinu.
Dómari bendir á að konan hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna atviksins. Tjónið verði rakið til ástands vistmannsins og skrifist þar með á vinnuveitandann samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 7.1.6. í kjarasamningnum.
Var Öldungur hf. dæmdur til að greiða konunni rúmlega 6,1 milljón króna í miskabætur og tæplega 2,5 milljónir króna í málskostnað.
Dóminn má lesa hér.