Jeff Bezos, eigandi Amazon, er nú kominn á toppinn samkvæmt milljarðamæringavísitölu Bloomberg. Eru eigur Bezos nú metnar á 200 milljarða Bandaríkjadala, 27.600 milljarða króna, á meðan eigur Musk eru metnar á 198 milljarða dala, 27.300 milljarða króna.
Bezos er enginn nýgræðingur á toppi listans því hann var þar síðast árið 2021.
Í þriðja sæti á listanum er Bernard Arnault, eigandi LVMH, en meðal vörumerkja undir félaginu má nefna Louis Vuitton, Fendi, Givenchy, Hennessy, Dom Pérignon og Christian Dior svo örfá séu nefnd. Eru eigur Arnault metnar á 197 milljarða Bandaríkjadala.
Bezos, Musk og Arnault hafa verið í harðri baráttu um efsta sætið á síðustu árum og telja greinendur CNN að sú þróun haldi áfram á næstu misserum. Í fjórða sætinu er Mark Zuckerberg og í 5. sætinu er Bill Gates en þeir eru töluvert á eftir hinum þremur.