Þrátt fyrir stórsigur á Sheffield United í gær fundu einhverjir stuðningsmenn Arsenal ástæðu til að pirra sig á Mikel Arteta, stjóra liðsins.
Martin Ödegaard kom Arsenal yfir á 5. mínútu og átta mínútum síðar setti Jayden Bogle fyrirgjöf Bukayo Saka í eigið net. Arsenal lék á als oddi og á 15. mínútu skoraði Gabriel Martinelli þriðja mark Arsenal.
Kai Havertz kom Arsenal í 4-0 á 25. mínútu leiksins og átti Declan Rice þá eftir að skora fimmta mark gestanna fyrir hlé. Arsenal lét eitt mark duga í seinni hálfleiknum en það gerði Ben White á 58. mínútu. Lokatölur 0-6.
Menn á borð við Fabio Vieira og Cedric Soares fengu sénsinn af bekknum í stórsigrinum en það vakti athygli að Emile Smith-Rowe kom ekkert við sögu.
Smith-Rowe var fyrir ekki svo löngu talinn ein af vonarstjörnum Arsenal en hefur hins vegar lítið spilað á þessari leiktíð og þeirri síðustu. Er hann kominn með 357 mínútur í öllum keppnum á yfirstandandi leiktíð.
„Frelsið Emile Smith Rowe. Það er djók að Cedric fari inn á á undan honum,“ skrifaði einn netverji.
„Hann þarf að fara í sumar ef hann vill ekki sóa ferlinum sínum,“ skrifaði annar.