Það vakti mikla athygli á dögunum þegar Birkir Heimisson gekk í raðir Þórs frá Val. Ef marka má kjaftasögur eru Akureyringar ekki hættir á leikmannamarkaðnum.
Í nýjasta þætti Þungavigtarinnar sagði sparskepingurinn Mikael Nikulásson frá orðrómum sem hann hafði heyrt um að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, væru á leið í Þór.
Báðir eru uppaldir hjá Þór en Aron Einar hefur ekki spilað með félagsliði sínu, Al-Arabi í Katar í hart nær tíu mánuði.
„Ég hef heyrt það að Aron Einar sé að koma í Þór og Atli Sigurjónsson líka. Ég er ekki að heyra þetta frá Sigga Höskulds (þjálfara Þórs). Ég bara heyrði þetta,“ sagði Mikael í Þungavigtinni.
Aron Einar á yfir 103 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd en óvissa er með þátttöku hans í mikilvægum umspilsleik gegn Ísrael síðar í þessum mánuði sökum meiðsla og lítils spiltíma undanfarið.
Age Hareide landsiðsþjálfari mun opinbera hóp sinn fyrir leikinn, sem fram fer í Ungverjalandi, þann 15. mars, sex dögum fyrir leik.