Arsenal kjöldróg Sheffield United á útivelli í lokaleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Það sást fljótt í hvað stefndi á Bramall Lane í kvöld. Martin Ödegaard kom Arsenal yfir á 5. mínútu og átta mínútum síðar setti Jayden Bogle fyrirgjöf Bukayo Saka í eigið net. Arsenal lék á als oddi og á 15. mínútu skoraði Gabriel Martinelli þriðja mark Arsenal.
Kai Havertz kom Arsenal í 4-0 á 25. mínútu leiksins og átti Declan Rice þá eftir að skora fimmta mark gestanna fyrir hlé.
Arsenal lét eitt mark duga í seinni hálfleiknum en það gerði Ben White á 58. mínútu. Lokatölur 0-6.
Arsenal er áfram í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir Manchester City og tveimur á eftir Liverpool.
Sheffield United er hins vegar á botninum, svo gott sem fallið.