Hann er orðinn sjötugur, er á eftirlaunum en hann starfaði sem fangavörður í Fond du Lac í Wisconsin. Hann hefur afrekað það að borða 34.128 Big Mac hamborgara.
Það þarf ekki að koma á óvart að hann er skráður í Heimsmetabók Guinness því enginn hefur borðað fleiri Big Mac en hann. Eins og flestir vita þá er Big Mac einn frægasti hamborgarinn frá skyndibitakeðjunni McDonald‘s. Hann samanstendur af þrískiptu hamborgarabrauði með tveimur borgurum, salati, lauk, súrum gúrkum og Big Mac sósu.
Allt frá því að Gorske tók fyrsta bitann af Big Mac þann 17. maí 1972 hefur hann borðað allt að níu Big Mac á dag, hvern einasta dag. Ekki nóg með það, því hann hefur geymt hverja einustu kvittun og hvern einasta kassa utan af borgurunum sem hann hefur borðað.
„Margir héldu að ég myndi vera dáinn núna en þess í stað er ég meðal þeirra heimsmethafa Guinness sem hafa haldið heimsmetinu lengst. Það er nú ansi gott, ef þú spyrð mig,“ sagði hann við Guinness World Records.
Hann gerir sér grein fyrir að það er ekki bein hollusta að borða Big Mac og hefur því reynt að halda sér í formi.
Á fyrstu árunum, eftir að hann kolféll fyrir Big Mac, hafði móðir hans áhyggjur af hvaða áhrif þessi neysla hans á hitaeiningum, sykri, salti og fitu myndi hafa á heilsu hans. Hún fékk hann því til að lofa sér að hann myndi borða að minnsta kosti eina máltíð á dag sem innihéldi ekki Big Mac. En hún gafst upp á þessu 1981 og sagði: „Ef þetta hefur ekki drepið þig enn, þá skaltu bara halda áfram.“
Eins og áður sagði, þá er Gorske meðvitaður um að Big Mac er ekki beint hollasti matur í heimi og getur haft valdið offitu og hjartavandamálum eins og annar skyndibitamatur. Hann hefur því sett sér ákveðnar reglur um hið daglega líf sitt til að reyna að halda sér heilsuhraustum og hressum.
Hann borðar til dæmis ekki morgunmat og fær sér aldrei franskar kartöflur með hamborgurunum. Auk þess gengur hann 10 km á dag. Að undanförnu hefur hann minnkað neyslu á Big Mac niður í tvo á dag.
Hann var vanur að aka nokkrum sinnum á dag á næsta McDonald‘s stað til að seðja hungrið en frá því að hann fór á eftirlaun hefur hann aðeins farið tvisvar í viku, hann kaupir bara marga í einu og tekur með heim. Hann hitar þá síðan í örbylgjuofni þegar kemur að því að borða þá.
The Guardian segir að Gorske hafi náð heimsmetinu fyrir flesta borðaða Big Mac árið 1999. Þá hafði hann borðað 15.490 borgara. Hann hefur átt fast pláss í Heimsmetabókinni síðan og hefur slegið heimsmetið með hverjum borgara sem hann hefur borðað.