New York Post greinir frá þessu.
Gleðskapurinn átti sér stað þann 26. ágúst í fyrrasumar og er faðirinn, Michael Meyden, sagður hafa blandað ávaxtaþeyting með frosnu mangói fyrir stúlkurnar meðan þær voru að horfa á bíómynd umrætt kvöld.
Það sem stúlkurnar vissu ekki var að Michael hafði sett kæruleysislyf, svokallað benzodiazepin, í blönduna. Lagði hann hart að stúlkunum að klára drykkinn – jafnvel þó ein úr hópnum hafi sagt að skrýtið bragð væri af sínum drykk.
Stúlkurnar sem um ræðir voru fjórar saman og sendi ein þeirra SMS-skilaboð til móður sinnar rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt sunnudagsins 27. ágúst.
„Gerðu það mamma, geturðu sótt mig og sagt að það hafi komið upp neyðartilvik í fjölskyldunni. Mér finnst ég ekki örugg,“ sagði stúlkan sem hafði misst meðvitund en vaknað upp eftir miðnætti.
Ein stúlknanna sofnaði ekki og lýsti hún því hvernig Michael hefði komið í tíma og ótíma inn í herbergi stúlknanna til að athuga hvort þær væru sofandi. Foreldrar stúlkunnar sem sendi SMS komu og sóttu hana um nóttina og höfðu þeir um leið samband við hina foreldrana. Er Michael sagður hafa verið tregur til að leyfa stúlkunum að fara.
Stúlkurnar voru færðar undir læknishendur og kom þá í ljós að þær höfðu neytt róandi lyfja.
Michael hefur nú verið ákærður vegna málsins og er ákæran í mörgum liðum, að því er segir í frétt New York Post. Lögregla hefur ekki gefið neitt upp um ástæður þess að Michael byrlaði stúlkunum.
Lögmaður hans, Mark Cogan, segir við bandaríska fjölmiðla að hann hafi ekki séð gögn málsins. Bætti hann við að skjólstæðingur sinn væri álitinn saklaus þar til annað sannast.