Bílstjóri ráðherra hafði betur í máli gegn íslenska ríkinu, í máli sem varðaði orlofslaun vegna yfirvinnu. Ríkið þarf að greiða bílstjóranum rúmlega eina milljón, þar sem ekki kom nægilega skýrt fram í ráðningarkjörum að orlof á yfirvinnu væri innifalið í föstum launakjörum.
Bílstjórinn gerði ráðningarsamning við Umbra-þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins í ágúst 2021. Umbra er ráðuneytisstofnun sem sinnir ýmsum rekstrarþáttum ráðuneytanna. Bílstjórinn hóf störf í október og gerðist félagsmaður í félagi starfsmanna stjórnarráðsins.
Samkvæmt samkomulagi um launagreiðslur skyldi bílstjórinn vera með 572 í mánaðarlaun og til viðbótar fasta yfirvinnu. Sagði í samkomulagi að öll yfirvinna væri innifalin í launakjörunum. Sumar 2022 fór bílstjórinn að ræða við samstarfsfélaga sína og kom það til tals að sumir þeirra fengju greitt orlofsfé á yfirvinnu en aðrir ekki. Eins væri misræmi í fjölda yfirvinutíma sem skilaði sér í mismun á orlofsfé. Bílstjórinn benti á að samkvæmt kjarasamningi eigi starfsmaður að fá greitt 13,04 prósent orlof á bæði yfirvinnu og álagsgreiðslur.
Hann fór og kannaði málið hjá öðrum aðildarfélögum BSRB og komst að því að rannsóknarlögreglumenn eru á sambærilegum fastlaunasamningi og bílstjórar Umbra, og þeir fengu greitt orlof á yfirvinnu og álag.
Bílstjórinn er með 55 yfirvinnustundir á mánuði og fyrir það hefur hann fengið greitt á bilinu 327 þúsund til 373 þúsund krónur til viðbótar við dagvinnulaun. Þar með næmi 13,04 prósent orlof 42-48 þúsund krónum á mánuði, eða allt í allt rétt rúmri milljón fyrir tímabilið nóvember 2021-september 2023.
Þegar hann leitaði til yfirmanns eftir leiðréttingu fékk hann þau svör að eftir breytingu 2018 hafi verið hætt að greiða orlof á fasta yfirvinnu hjá starfsfólki Stjórnarráðsins. Starfsmenn á fastlaunasamningi fengu greidda yfirvinnu alla mánuði ársins, einnig þegar þeir væru í sumarfrí.
Bílstjórinn benti á að ekki væri heimilt að semja um lakari kjör en segir í kjarasamningi.
Ríkið krafðist sýknu í málinu og taldi sig ekki standa í nokkurri skuld við bílstjórann. Hann væri með 55 klukkustundir í yfirvinnu á mánuði, það væri óumdeilt, og hann hefði með engu útskýrt eða rökstutt hvers vegna hall teldi ríkinu bera að greiða honum orlofslaun á þessa föstu yfirvinnu. Ríkið benti á að orlofsgreiðslur á yfirvinnu, 13,04 prósent, eigi rætur að rekja til töku orlofs. Þegar fólk fer í frí nýtur það fastra launa, en álagsgreiðslur og yfirvinna detta jafnan út sem veldur því að útborgun verður minni en ella. Orlofsgreiðslur á yfirvinnu séu til þess að mæta þessu tekjutapi. Þetta gildi ekki hjá Stjórnarráðinu sem greiði fasta yfirvinnu jafnvel þó starfsmenn séu farnir í frí. Því geti ríkið ekki talist í nokkurri skuld við bílstjórann sem hafi undirritað ráðningarsamning athugasemdalaust og þegið laun í 22 mánuði án athugasemda. .
Ríkið lagði mikla áherslu á að krafa bílstjórans væri fallin niður sökum tómlætis. Hæstiréttur hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að það fæli í sér tómlæti er starfsmaður tók við launum mánaðarlega í tvö ár án þess að gera fyrirvara um kröfu sína. Þar sem bílstjórinn hafi unnið fyrir ráðuneytið síðan 2021 þá hefði honum átt að verða það ljóst fyrir löngu að hann fengi ekki greitt orlof af yfirvinnu og gera athugasemd við það. Auk þess væri um fasta yfirvinnustundir að ræða sem koma til viðbótar við mánaðarlaun. Þetta séu kjör sem gangi lengra en kjarasamningur. Bílstjórinn væri því ekki með lágmarkskjör, sem njóti ríkari verndar en önnur kjör. Viðbótarkjör lúti öðrum lögmálum og sé það undir launþega komið að gera tafarlaust viðvart ef hann telur að mistök hafi átt sér stað við útreikning eða að hann hafi verið hlunnfarinn.
Dómari sóaði ekki mörgum orðum í forsendur sínar, en kaflinn er mjög knappur. Þar sem ríkið hafi ekki sérstaklega tekið fram í ráðningarsamningi að orlofsfé yrði ekki greitt af yfirvinnu sökum þess að yfirvinna er greidd í orlofi, þá þurfi þeir að bíta í það súra epli að rífa upp veskið og borga. Bílstjórinn hafi engar forsendur haft til að álykta að orlof af yfirvinnu væri hluti af heildarlaunum hans og þar sem ríkið hafi ekki komið því skýrt á framfæri þá sé það þeim að kenna en ekki honum.