Athafnamaðurinn Bjarni Ákason var gestur í Spjallinu með Frosta Logasyni. Bjarni hefur marga fjöruna sopið í íslensku viðskiptalífi en hann er um þessar mundir að ganga frá sölu á fyrirtæki sínu Bakó-Ísberg sem hann keypti árið 2019 eftir að hafa selt Apple umboðið á Íslandi í annað sinn. Á síðasta ári fagnaði Bjarni endanlegri niðurstöðu í skattrannsóknarmáli sem tók næstum 15 ár af lífi hans, en hann var á endanum sýknaður af öllum ásökunum sem Bjarni segir að hafi allan tímann verið ein tilefnislaus þvæla.
Bjarni þekkir líka vímuefnavandann af eigin raun, en í viðtalinu segir hann frá því hvernig fjölskylda hans hefur þurft að glíma við fíknivanda stjúpsonar Bjarna auk þess sem dóttir hans var á sínum tíma margstungin af þáverandi kærasta sem var í ruglinu. Um þetta segir Bjarni:
„Það var kærasti dóttur minnar sem réðst á hana á heimili þeirra með hníf og stakk hana fimm sinnum. Í magann og andlitið og … það var svona erfiður tími þegar þú ert á gjörgæsludeild með dóttur þinni og heldur í höndina á henni. Maður var þarna meira og minna í hálfan mánuð.“
Bjarni segir að hann og fjölskylda hans hafi lent í ýmsu en hafi komist í gegnum erfiðleikana. Hann er afar þakklátur fyrir fjölskyldu sína í dag og segir ekkert vera dýrmætara.
Brot úr viðtalinu má sjá í spilaranum hér að neðan en viðtalið í heild má nálgast á brotkast.is