Fulltrúar N1 og KSÍ endurnýjuðu í gær, þriðjudaginn 27. febrúar, samstarfssamning til næstu fjögurra ára, eða til ársloka 2027. Fyrsti samstarfssamningur N1 og KSÍ var undirritaður árið 2014 og felur nýi samningurinn í sér að N1 verði áfram einn helsti bakhjarl KSÍ í bæði kvenna- og karlaknattspyrnu.
Að auki tryggir samningurinn áframhaldandi stuðning við sérverkefni N1 undir heitinu Hæfileikamótun KSÍ. Það hefur að markmiði að byggja undir vaxandi áhuga á knattspyrnuiðkun meðal yngri iðkenda af öllum kynjum um land allt, m.a. með því að knattspyrnulið á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu fái heimsóknir frá þjálfurum KSÍ.
„N1 hefur í áratugi látið sig grasrótarstarf íslenskrar knattspyrju varða með ýmsum hætti, meðal annars með beinum stuðningi við fjölmörg íþróttafélög víða um land og undanfarin ár sem einn af aðalbakhjörlum KSÍ. Við erum mjög ánægð með nýja samninginn sem er til fjögurra ára í stað tveggja eins og áður var, enda samstarfið við KSÍ reynst afar farsælt, ekki síst Hæfileikamótunin sem er gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, forstöðumaður markaðs- og þjónustusviðs N1.
Samstarf N1 og KSÍ spilar stórt hlutverk þegar kemur að grasrótarstarfi í knattspyrnu en N1 hefur um árabil verið einn helsti styrktaraðili við grasrótarstarf í knattspyrnu sem er mikilvægur grunnur fyrir framgang allra kynja í íþróttinni. Markmið Hæfileikamótunar N1 og KSÍ er einna helst að fylgjast með yngri leikmönnum og undirbúa fyrir hefðbundnar landsliðsæfingar með bæði fræðslu og æfingum, auk þess að koma til móts við minni félög á landsbyggðinni til að gefa sem flestum leikmönnum tækifæri til að sýna sig og sanna.
„Við erum afar ánægð og auðvitað þakklát að N1 skuli fylgja okkur áfram næstu fjögur árin. Samstarfið hefur verið frábært og það er gríðarlega mikilvægt fyrir knattspyrnusambandið að hafa öfluga bakhjarla til að við getum sinnt okkar verkefnum sem allra best,“ segir Þorvaldur Örlygsson, nýkjörinn formaður KSÍ.