Þegar fólkið kom að stað, sem nú heitir Serranía de la Lindosa, tók fólkið sér búsetu í steinskýlum, bjó til steinverkfæri, stundaði veiðar og söfnun og bjó til mikilfeng hellalistaverk. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Quaternary Science Review.
Áður var vitað að fólk settist að á þessu svæði fyrir að minnsta kosti 12.600 árum. Út frá hellalistaverkunum gátu vísindamenn öðlast betri skilning á hvernig fólkið nýtti svæðið og á hvaða tímabili ekki var búið þar.
Mark Robinson, prófessor í fornleifafræði við University of Exeter í Bretlandi, segir í tilkynningu að flæði fólks yfir Suður-Ameríku hafi verið einn af stóru fólksflutningaatburðum mannkynssögunnar en lítið hafi verið vitað um komu þess til Amazon. Það sé erfitt að stunda rannsóknir á svæðinu vegna þess hversu þéttur regnskógurinn er.
Rannsóknin leiddi í ljós að á sumum tímabilum var ekkert fólk á svæðinu, stundum í allt að heila öld. Á svæðinu fundust 3.000 ára gamlir leirmunir og 2.500 ára sannanir fyrir landbúnaði. Hélst búseta á svæðinu allt fram á sautjándu öld.