Karlmaður sem flaug á viðskiptafarrými (e. Business Class) frá Toronto til Vancouver í Kanada ákvað að bregðast vel við bón konunnar sem sat við hlið hans þegar hún spurði hvort maðurinn væri til í að skipta um sæti við eiginmann hennar.
Karlmaðurinn og konan sátu saman í tveggja sæta röð í miðröð viðskiptafarrýmisins. Karlmaðurinn svaraði beiðninni játandi að því gefnu að eiginmaðurinn sæti annars staðar á viðskiptafarrýminu, en eiginkonan sagði þá að maðurinn hennar sæti í sæti 18B, í almenna farrýminu (e. Economy Class).
„Þú ert ekki í alvörunni að ætlast til þess að ég skipti þessu sæti út fyrir miðsæti á almennu farrými. Ertu að grínast?“ spurði maðurinn og segist hann í fyrstu hafa haldið að konan væri einfaldlega að grínast í honum.
En nei, konunni var full alvara og varð hún fokreið yfir spurningu mannsins og sagði: „En þú sagðir að þú værir til í að skipta. Maðurinn minn er nú þegar á leiðinni hingað!“
Maðurinn sagði frá þessari uppákomu í færslu á Reddit og segir að hjónin hafi upphaflega setið saman í almennu farrými, en af einhverri ástæðu sem hann vissi ekki bauðst konunni að færa sig yfir á viðskiptafarrýmið, sem hún þáði og bjóst greinilega við að hún gæti fengið einhvern til að skipta um sæti við eiginmann hennar.
Karlmaðurinn sagði við konuna að hann væri til í að skipta um sæti við hvern sem er á viðskiptafarrýminu, svo þau hjónin gætu setið saman, ef hún gæti fengið einhvern annan á viðskiptafarrýminu til að skipta við eiginmanninn. Eða hún gæti einfaldlega fært sig aftur yfir í almenna farrýmið til að sitja við hlið eiginmannsins.
Segir maðurinn konuna hafa verið orðna hundpirraða: „En við viljum bæði sitja saman hér.“
Á endanum settist konan niður og var aðskilin frá eiginmanni sínum í þær fimm klukkustundir sem flugið tók.
Frásögnin er ein af fjölmörgum frá flugfarþegum sem lenda í því að samfarþegar þeirra reyni að fá þá til að skipta um sæti, yfirleitt með nokkurri frekju eða eru hreinlega búnir að koma sér fyrir í sæti sem þeir greiddu ekki fyrir.
Að vanda voru netverjar alveg gáttaðir á frekju konunnar og tóku nær undantekningarlaust undir að karlmaðurinn hefði verið í fullum rétti til að verða ekki við beiðni konunnar.
„Ætlast þau virkilega til að fólk gefi frá sér það sem það er búið að greiða aukalega fyrir? Flugfélögin ættu líka að axla ábyrgð hér. Áður en þau uppfæra einhvern með sæti ættu þau að spyrja hvort viðkomandi sé að ferðast með einhverjum. Og ef þau sjá einhverja af Karen þessa heims, þá ætti svarið undantekningarlaust að vera að hún fái ekki uppfærslu.“
Oft kemur það upp að einstaklingur sem ferðast einsamall er beðinn um að skipta um sæti svo fjölskylda geti setið saman. Ferðasérfræðingurinn Nicole Campoy Jackson segir það ekki á ábyrgð einstaklingsins að fjölskyldan geti setið saman, það sé frekar á ábyrgð flugfélagsins og flugþjóna að bjóða upp á þjónustu við fjölskylduna í slíkum tilvikum, sérstaklega ef að til ágreinings kemur ef einstaklingur neitar að verða við beiðni um að færa sig.
„Almenna reglan er sú, ekki fara um borð í flugvél og gera ráð fyrir að aðrir farþegar færi sig fyrir þig. Sérstaklega ef sætið þitt er ekki eins þægilegt og þeirra, eða á verri stað eða annað.“