Maður í Texas, Tyler Loudon að nafni, er sagður hafa grætt um 1,76 milljónir dollara (tæplega 230 milljónir króna) á innherjaviðskiptum eftir að hann hleraði símtöl eiginkonu sinnar þar sem hún ræddi um yfirvofandi kaup vinnuveitanda hennar á öðru fyrirtæki.
Eiginkonan var í öll þessi skipti að sinna starfi sínu á heimili hjónanna. Hún starfaði hjá orkufyrirtækinu BP og var í símtölunum að ræða yfirvofandi kaup þess á fyrirtækinu TravelCenters of America. Eiginmaður hennar keypti hlutabréf í síðarnefnda fyrirtækinu, án vitneskju eiginkonunnar, áður en tilkynnt var opinberlega um kaupin fyrir um ári.
Við tilkynninguna hækkuðu hlutabréf í TravelCenters of America um 71 prósent og skömmu seinna seldi Loudon bréfin með þeim ágóða sem áður hefur verið greint frá.
Fjámálaeftirlitið í Bandaríkjunum segir hann hafa misnotað traust eiginkonu sinnar og þá staðreynd að hún skuli hafa verið að vinna í fjarvinnu á heimili þeirra. Stofnunin hefur lagt fram kæru á hendur Loudon.
Það var NBC sem greindi frá.