fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Katrín mikla og svipugöng sjálfstæðismanna

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 25. febrúar 2024 14:30

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að fjandmenn Frakka höfðu haft endanlegan sigur á herjum Napóleons gerðu Austurríkismenn, Prússar og Rússar með sér bandalag sem nefnt var heilagt (þ. Heilige Allianz). Markmiðið var að halda aftur af þeim frjálslyndisstraumum og þeirri veraldarhyggju sem fylgt hafði frönsku byltingunni og stjórnartíð Napóleons. Þar fóru hagsmunir umræddra þrívelda saman um flest. Það var svo aftur kallað vanheilagt bandalag (e. Unholy Alliance) áratugum síðar þegar Frakkar og Bretar tóku höndum saman með Ottómönum gegn ásælni Rússa við Svartahaf, í stríði sem kennt er við Krímskaga — enda fátt annað sem gat sameinað Vesturveldin og hið fornfálega heimsveldi Tyrkja.

Síðan þá hefur þetta hugtak reglulega verið notað, einkum í ensku máli, um óeðlileg bandalög, bandalög milli aðilja sem eru á öndverðum meiði um flest en sjá sér hag í að sameinast um einhvern málstað um stundarsakir.

 

Vinstri grænir ráða för

Ólafi Thors tókst haustið 1944 að mynda ríkisstjórn með sósíalistum og alþýðuflokksmönnum sem jafnan hefur verið kölluð nýsköpunarstjórnin. Frá því að hún sprakk tveimur árum síðar var talið nánast útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn gæti átt í stjórnarsamstarfi með flokknum yst á vinstrivængnum. Eitt sinn var talað um „sögulegar sættir“ í þessu sambandi en slík pólitísk tilraunastarfsemi var varla rædd af neinni alvöru fyrr en síðla árs 2017 þegar óvenjulegt ástand að loknum alþingiskosningum kallaði á óvenjulega lausn. Í kjölfarið var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna — undir forystu formanns minnsta flokksins, lengst til vinstri. Sjö árum síðar er sama stjórnin enn við völd, þrátt fyrir að ýmsir aðrir kostir hafi verið á stjórnarmyndun eftir síðustu alþingiskosningar. Og allan þennan tíma hefur ekki komið til álita að formaður stærsta flokksins sé í forystu ríkisstjórnar líkt og venja er nálega alls staðar þar sem samsteypustjórnir ríkja.

Þetta vanheilaga bandalag er erfitt að skilja frá sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins, sem heldur fjármálaráðuneytinu en fellir sig við skattahækkanir, linnulausan hallarekstur og skuldsetningu ríkissjóðs, heldur ráðuneyti orkumála en lætur sér lynda að ekkert megi virkja, heldur dómsmálaráðuneytinu en fellir sig við stefnu í útlendingamálum sem er fullkomlega í óþökk flokksmanna (og raunar yfirgnæfandi meirihluta landsmanna). Þá lét Sjálfstæðisflokkurinn ekki við það sitja að gera formann Vinstri grænna að forsætisráðherra, heldur var forveri Katrínar Jakobsdóttur á formannsstóli VG hafinn til æðstu metorða og kjörinn forseti Alþingis. Landsdómsmálið var skyndilega grafið og gleymt, ákæra meirihluta Alþingis á hendur fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins.

 

Óstjórn látin viðgangast áfram

Hér voru nokkur mál nefnd þar sem opinberast hefur æ betur djúpstæður ágreiningur sjálfstæðismanna annars vegar og vinstri grænna hins vegar. Og líklega brennur ekkert mál jafnmikið á landsmönnum þessi misserin og útlendingamálin, sér í lagi málefni hælisleitenda sem eru komin í slíkt óefni að líkt hefur verið við neyðarástand. Forystumenn nálega allra flokka hafa nú viðurkennt það stjórnleysi sem þar ríkir.

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur farið mikinn í umræðuþáttum vegna þessar og talar enga tæpitungu – taka verði af ábyrgð og festu á þeim alvarlega vanda sem uppi er. Því var ekki að undra að athygli vekti í liðinni viku þegar ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í málaflokknum. Sé rýnt í þá langorðu yfirlýsingu sem fylgdi kemur í ljós að þar er engin tilraun gerð til að ráðast að rótum vandans – en hann felst í því að hingað leita miklu fleiri hælisleitendur en nokkurn tímann er hægt að sinna með góðu móti, fjöldinn er á pari við fædda Íslendinga á ári hverju. Það sem mestu máli skiptir er að stemma stigu við aðflutningnum, afnema veikleika í lögum og regluverki sem hafa leitt yfir okkur þennan vanda. Sjálfur álítur dómsmálaráðherra að hámarksfjöldi sem kerfin ráði við séu fimmhundruð manns á ári. Fjöldi umsækjenda er meira en áttföld sú tala.

 

Stóra spurningin

Í Krímstríðunum sem áður voru nefnd réð Nikulás I keisari fyrir ríki í Rússlandi, barnabarn Katrínar miklu keisaraynju. Nafna hennar hefur setið lengur á stóli forsætisráðherra en nokkur annar forystumaður vinstriflokks hér á landi. Sjö – og kannski átta – ára stjórnarseta kemst á spjöld sögunnar þó svo að flokkur Katrínar kunni jafnvel að þurrkast út í næstu kosningum.

Að því sögðu verður forvitnilegt að sjá hvernig sagnfræðingar framtíðarinnar munu fjalla um núverandi tímaskeið í íslenskri stjórnmálasögu. Ekki kæmi mér á óvart að þar yrði leitað svara við því hvers vegna forysta Sjálfstæðisflokksins kaus að viðhalda hinu „vanheilaga bandalagi“ svo lengi og ganga ítrekað gegn helstu stefnumálum síns flokks. Hvernig gat það gerst að minnsti flokkurinn í stjórnarsamstarfi, yst til vinstri á þingi, náði undirtökunum í íslenskum stjórnmálunum? Eða eins og einn viðmælandi minn orðaði það á dögunum: Hvenær var Katrín Jakobsdóttir kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim