fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Vörður hafnaði bótaskyldu í máli konu sem lenti í þremur árekstrum á einu ári – Bifreiðinni ekið svo hægt að kinnhestur væri kraftmeiri en áreksturinn

Ritstjórn DV
Laugardaginn 24. febrúar 2024 18:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur lækkað þær bætur sem Verði tryggingum hafði í héraði verið gert að greiða konu vegna umferðarslyss em hún lenti í árið 2017. Vörður hafði alfarið hafnað bótagreiðslu þar sem hann taldi ljóst að konan hefði ekki orðið fyrir neinu tjóni við slysið.

Tjónþoli, ónefnd kona, lenti í tveimur umferðarslysum á árinu 2017. Hafði hún ekið aftan á annað ökutæki í fyrra skiptið og fengið við það töluvert högg. Hún kenndi sér í framhaldinu meins í háls og hrygg, og glímdi við verki. Fjórum mánuðum síðar var sendibíl ekið aftan á bifreið hennar. Um var að ræða vægan árekstur þar sem lítið sem ekkert tjón varð á ökutækjunum.

Konan hafði þó uppi bótakröfu á hendur Verði sem er tryggingafélag ökumanns sendibifreiðarinnar. Þar sem um tvö slys var að ræða ákvað Vörður að óska eftir matsgerð í sameiningu með Vátryggingarfélagi Íslands sem var bótaskylt gagnvart fyrra slysinu. Samkvæmt þeirri matsgerð voru bæði slysin frekar væg og bæri að skipta miska og varanlegri örorku jafnt á milli þeirra. 5 miskastig á hvort slys og 9 prósent varanleg örorka á hvort.

Konan hafði í kjölfar seinna slyssins glímt við verri verki, höfuðkvalir, þreytu og fleiri einkenni sem hún rakti til slyssins. Á endanum varð hún óvinnufær sem varð til þess að hún missti vinnuna eftir að hafa farið í langt veikindaleyfi.

Vörður var ósammála því að bæði slysin væru metin jafnt til bóta. Fékk Vörður kvaddan til eðlisfræðing til að leggja mat á hraða bifreiðanna þegar slysið átti sér stað og að mati matsmanns hafi bifreið konunnar verið á um 6-8 km/klst þegar áreksturinn varð og megi í því samhengi benda á að kinnhestur og þétt högg með hendi á bak valdi kröftugri hnykk en árekstur á þessum litla hraða.

Á grundvelli þessa neitaði Vörður bótaskyldu og var sú niðurstaða staðfest hjá úrskurðarnefnd vátryggingarmála. Vörður rakti að bifreiðinni hafi verið ekið á gönguhraða og við áreksturinn hafi hvorug bifreið orðið fyrir tjóni. Þetta sjáist skýrt af því að konan fór ekki með bifreið sína í viðgerð fyrr en um hálfu ári síðar eftir að hún lenti í þriðja árekstrinum.

Konan leitaði þá til dómstóla. Þar var rakið að hún hafði fyrir slysin glímt við vefjagigt og stoðkerfisvanda. Vörður taldi ekkert hafa sannað að seinna slysið hafi valdið henni frekari skaða en hún glímdi þegar við vegna sjúkrasögu sem og fyrri árekstursins.

Dómari í héraði mat það svo að það væri ljóst af vottorðum lækna að konan hafi glímt við versnandi einkenni eftir seinna slysið. Hún hafi svo orðið óvinnufær og megi því leiða að því líkur að slysinu yrði þar um kennt. Jafnvel þó að bifreið hafi verið ekið mjög hægt þá sé ekki hægt að fullyrða að ekkert tjón hafi orðið.

Málinu var svo áfrýjað til Landsréttar. Þar voru aftur dómkvaddir matsmenn til að meta afleiðingar af slysunum. Þeir máti það sem svo að konan hefði hlotið viðbótartognun í seinna slysinu sem hafi leitt til versnunar á einkennum. Hins vegar bæri aðeins að meta það til 3 miskastiga. Varanleg örorka yrði ekki að nema litlu leyti metin til þeirra vægu áverka sem hún hlaut í seinna slysinu, eða 5 prósent örorka.

Þá kom til álita við hvaða laun bæri að meta bætur. Konan krafðist þess að undantekning yrði gerð á reiknireglu um að skoða meðallaun síðustu þriggja ára fyrir slysið. Heldur ætti að horfa til ársins 2014 sem gefi betri mynd af launum hennar.

Vörður mótmælti því og rakti að konan væri með verslunarpróf en ekki stúdentspróf. Hún hafi unnið við allskonar þjónustu- og afgreiðslustörf og bæri að miða laun hennar við meðallaun slíkra starfa samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

Dómari í Landsrétti rakti að konan hafi lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogafærni. Hún hafi árið 2015 gegnt stjórnunarstöðu sem og árið 2017 þegar hún lenti í slysinu. Yrði því að leggja til grundvallar að hún hefði áfram unnið í stjórnunarstöðu hefði hún ekki orðið óvinnufær eftir slysin. Því bæri að miða við meðaltekjur hennar árið 2014.

Í héraði voru konunnar dæmdar rúmlega 7 milljónir í bætur en Landsréttur ákvað að leggja nýrra matið til grundvallar og lækkaði bætur niður í 4,2 milljónir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“