fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás eftir að meintur þolandi mundi ekki eftir neinu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. febrúar 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr í dag var kveðinn upp dómur yfir karlmanni í Héraðsdómi Suðurlands sem ákærður var fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið konu í höfuðið með poka sem innihélt fjórar bjórflöskur úr gleri með þeim afleiðingum að hún hlaut heilahristing og tvær kúlur. Konan sagðist fyrir dómi ekki muna eftir atburðinum. vitni breytti framburði sínum og var maðurinn í kjölfarið sýknaður.

Um málavöxtu segir meðal annars í dómnum að meint árás hafi átt sér stað utandyra í Þorlákshöfn sumarið 2021 að nóttu til. Lögreglan var kölluð á staðinn en þegar hún kom þangað var enginn þar. Hringt var í tilkynnanda og í kjölfarið kom konan á staðinn og ræddi við lögreglumenn. Var hún bersýnilega undir áhrifum og með kúlu á enninu. Sagðist hún bæði hafa neytt áfengis og kókaíns.

Konan sagðist hafa keypt kókaín af manninum í partýi og þau í kjölfarið deilt vegna ásakana mannsins um að einhver í partýinu hefði stolið af sér grammi af kókaíni. Sagði konan að maðurinn hefði hvatt hana til að kýla sig sem hún hafi gert og hann þá slegið hana með pokanum sem í voru bjórflöskur. Vildi konan á þessum tímapunkti ekki leggja fram kæru.

Þekkti ekki manninn

Konan gaf skýrslu hjá lögreglu nokkrum dögum seinna. Hún sagðist ekkert þekkja manninn sem hún sagði að hefði slegið sig í höfuðið. Í skýrslutökunni vildi hún meina að maðurinn hefði gefið henni og fleiri gestum í partýinu kókaín og síðan sakað þau um að hafa stolið því sem hafi komið af stað deilum þeirra á milli sem endað hafi með því að hún hafi slegið hann laust eftir hvatningu frá honum og hann svarað með bylmingshöggi. Sagði konan að í pokanum sem maðurinn hefði notað sem vopn hefðu verið fjórar fullar hálfs lítra bjórflöskur. Sagðist konan hafa vankast í kjölfarið og fallið í jörðina en maðurinn haldið þegar á brott. Vildi hún meina að tveir einstaklingar hefðu orðið vitni að árásinni og væri annar þeirra vinur hennar.

Umræddur vinur gaf um þremur vikum síðar skýrslu hjá lögreglu. Tók hann undir með konunni að maðurinn sem ákærður var hefði gefið þeim og fleiri gestum í partýinu kókaín en síðan sakað þau um að hafa stolið því. Hann staðfesti frásögn konunnar um að maðurinn hefði slegið hana í höfuðið með poka sem í voru fullar bjórflöskur. Konan hefði í kjölfarið bólgnað á enninu og misst meðvitund í nokkur skipti. Sagðist vinurinn hafa verið ölvaður þetta kvöld.

Sögðu konuna eina hafa beitt ofbeldi

Þremur dögum eftir þessa skýrslutöku kom annað vitni, karlmaður, til skýrslutöku hjá lögreglu. Hann staðfesti frásögn konunnar í meginatriðum. Hann sagðist hafa séð hinn ákærða sveifla pokanum með flöskunum í átt að höfði hennar og hún bólgnað í kjölfarið við hægra gagnaugað og liðið hefði yfir hana. Sagðist vitnið hafa verið undir áhrifum áfengis og neytt kókaíns.

Um mánuði síðar kom kærasta hins ákærða til skýrslutöku hjá lögreglu. Hún sagðist hafa verið með honum umrætt kvöld. Kærastan fullyrti að konan sem sakaði manninn um að hafa slegið sig hefði verið sú eina sem beitt hefði líkamlegu ofbeldi í deilum þeirra. Hún sagði að hinn meinti þolandi hefði slegið manninn í andlitið með krepptum hnefa en hann þá hent pokanum með bjórnum í jörðina. Kærastan sagðist hafa verið allsgáð.

Hinn meinti árásarmaður gaf skýrslu sama dag og kærustan hans. Hann tók alfarið undir frásögn hennar. Konan sem sakaði hann um að hafa slegið sig hefði slegið hann með krepptum hnefa en hann hent pokanum með bjórnum í jörðina til að hræða hana.

Hinn meinti þolandi var flutt til skoðunar á sjúkrahúsi morguninn eftir meinta árás. Í læknisvottorði kom fram að erfitt hafi reynst að meta ástand hennar. Sést hafi þó tvær kúlur á höfði hennar. Engir innri áverkar hafi fundist við sneiðmyndatöku. Konan hafi einnig verið með heilahristing.

Fram kemur í dómnum að konan hafi síðar óskað eftir að draga refsikröfu til baka þar sem menn sem hún óttaðist hefðu sett sig í samband við hana vegna málsins.

Meintur þolandi mundi ekkert fyrir dómi

Aðalmeðferð í málinu fór fram í byrjun þessa mánaðar, rúmum tveimur og hálfu ári eftir að meint árás átti sér stað.

Fyrir dómi stóðu hinn ákærði og kærasta hans alfarið við framburð sinn hjá lögreglu.

Konan sem sakaði manninn um að hafa slegið sig í höfuðið með pokanum, sem í voru fjórar fullar bjórflöskur, sagðist hins vegar ekki muna eftir árásinni. Hún hefði glímt við minnisleysi vegna mikillar fíkniefnaneyslu og myndi ekki glöggt eftir þessu tíma í lífi sínu.

Vinur hins meinta þolanda, sem staðfesti hjá lögreglu að hún hefði orðið fyrir árás af hálfu hins ákærða, dró framburð sinn til baka fyrir dómi. Hann sagðist aldrei hafa orðið vitni að neinni árás af hálfu hins ákærða. Hann hefði trúað fullyrðingum vinkonu sinnar um það og haft orð hennar eftir við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann hefði þó séð áverka á henni þetta kvöld.

Hitt vitnið sem staðfest hafði frásögn konunnar af meintri árás dró þann framburð einnig til baka fyrir dómi og sagðist ekki muna eftir atvikum vegna mikillar fíkniefnaneyslu. Sagðist hann telja fullyrðingar konunnar um árásina vera rugl í ljósi þess að hún hefði einnig verið í mikilli neyslu.

Læknirinn sem tók á móti konunni sagði fyrir dómi að hún hefði haft áverka á höfði en hann gæti ekki fullyrt um hvaða orsakir lægju þar að baki.

Læknisvottorðið ekki næg sönnun eitt og sér

Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands segir að þótt læknisvottorðið renni stoðum undir að konan hefði sannarlega orðið fyrir árás sanni það eitt ekki sekt mannsins. Framburður hins ákærða og kærustu hans um að hann hafi alls ekki ráðist á konuna hafi staðið óhaggaður allan tímann. Sú staðreynd að vinur konunnar hafi breytt framburði sínum fyrir dómi og sagst ekki hafa orðið vitni að neinni árás og hefði orð hennar einnar fyrir því hefði dregið úr trúverðugleika framburðar konunnar í skýrslutöku hjá lögreglu.

Þar af leiðandi var maðurinn sýknaður af ákærunni fyrir sérlega hættulega líkamsárás.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hraunið fer brátt að renna inn á bílastæði Bláa lónsins – Sjáðu myndina

Hraunið fer brátt að renna inn á bílastæði Bláa lónsins – Sjáðu myndina
Fréttir
Í gær

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“