Hún snýr til baka á keppnissviðið í maí eftir fimm ára pásu. Undanfarna mánuði hefur hún unnir hörðum höndum að byggja sig upp, bæði líkamlega og andlega, eftir mjög erfitt tímabil. Hún missti matarlyst, átti erfitt með að finna gleðina og brosa, hún hafði fjarlægst fólkið sitt og fann að hún var búin að ná botninum. Þá var bara eitt í stöðunni: Standa á fætur og rífa sig upp.
Unnur spurði sjálfa sig: Hver er ég? Við tók mikil vinna, bæði líkamleg og andleg, sem hefur skilað henni ótrúlegum árangri. Hún ræðir þetta og margt annað í þættinum sem má horfa á hér að neðan.
Áhuginn á fitness kviknaði árið 2007 þegar Unnur horfði á vinkonu sína keppa. Ári seinna steig hún á svið og hreppti annað sæti. Hún endurtók leikinn næsta ár og lenti aftur í öðru sæti.
„Það kom öllum mjög mikið á óvart því ég var alltaf ótrúlega lokuð, feimin og inni í skelinni sem krakki og unglingur. Þannig þetta var mjög stór áskorun,“ segir hún. „En svo var ekki aftur snúið.“
Unnur varð síðan ólétt af eldri syni sínum og tók sér hlé frá keppni en sneri aftur stuttu eftir eins árs afmæli hans og fékk gullið.
Hún hefur keppt um fimmtán sinnum en er nú að fara að snúa aftur á svið þann 12. maí næstkomandi eftir fimm ára pásu, nú í fyrsta skipti í 35 ára+ aldursflokknum.
Fimm ára pásan hófst árið 2019 eftir að Unnur krassaði eftir of mikla og langa keyrslu.
„Ég tók svolítið brútal hálft ár. Skar af mér einhver 10 kíló og 15 prósent í fitu á tíu vikum. Svo þurfti ég að halda mér þannig í þrjá mánuði fyrir mótin 2019 og eftir það var líkami minn bara búinn. Ég byrjaði að borða aftur venjulega en varð aldrei södd. Ég var samt alveg að passa mig að borða hollt en ég borðaði bara svo mikið. Ég þyngdist um 20 kíló á hálfu ári,“ segir hún.
Aðspurð hvort þetta hafi haft einhver áhrif andlega, að sveiflast svona upp og niður í þyngd segir Unnur að þetta hafi vissulega verið erfið en góð lexía.
„Ég er í grunninn mjög andlega sterk,“ segir hún og bætir við að hún hafi alla tíð verið meðvituð um að fitness sé öfgakennt sport.
„Mér finnst mjög gott að hafa upplifað þetta. Þó þetta sé ekki það hollasta að upplifa en þetta fer allt í reynslubankann en þá get ég líka skilið fólk sem fer þangað.“
Unnur hefur nær alla tíð vitað hvað hún ætlaði að vera þegar hún yrði stór. „Ég ákvað að verða gullsmiður þegar ég var fjögurra ára og hér er ég,“ segir Unnur og hlær.
Það er kominn meira en áratugur síðan Unnur útskrifaðist og vinnur hún við hlið pabba síns, Óla Jóhanns Daníelssonar, í Gullsmiðju Óla.
Það er nóg að gera hjá Unni að starfa bæði sem gullsmiður og einkaþjálfari, æfa fyrir fitnessmót og sem einstæð tveggja barna móðir.
„Ég lít á þetta sem tímabil. Ég var í löngu fæðingarorlofi og svo stóð ég í skilnaði og þá þarf maður að standa á eigin fótum og vera duglegur. Þetta er bara tímabil,“ segir hún.
Unnur á tvo syni sem hún eignaðist með tólf ára millibili. Hún er að fara að ferma þann eldri í vor, hann er fjórtán ára og yngri tveggja ára.
Talið berst að uppeldi og hvernig umræðan og væntingar samfélagsins til foreldra hefur breyst í gegnum árin. Aðspurð hvort hún finni fyrir einhverjum mun að vera móðir smábarns núna og fyrir rúmum áratug segir Unnur:
„Í mínu tilfelli finnst mér það vera aldurinn. Ég var mjög ung þegar ég átti eldri son minn, ég var 21 árs og eiginlega eina manneskjan í mínum vinkonuhóp með barn en nú eru náttúrulega allir með börn og allt of mörg börn,“ segir hún og hlær.
„Mér finnst auðveldara að vera mamma núna, með lítið barn. En ég veit ekki, ég stóð mig ágætlega í denn.“
Unnur segir móðurhlutverkið hafa breytt lífi hennar til hins betra. „Breytir það manni ekki alltaf til hins betra? Dregur mann aðeins niður á jörðina. Maður verður ábyrgðarmeiri, meira jarðtengdari,“ segir hún.
„Maður má ekki setja sjálfan sig í þriðja eða fjórða sæti þegar maður eignast barn. Maður þarf alltaf að vera í fyrsta sæti.“ Eins og að setja súrefnisgrímuna fyrst á sig í flugi. „En það eru alls ekki allir sem taka það til sín.“
Fylgstu með Unni á Instagram. Hún er dugleg að deila ferlinu með fylgjendum. Hún er hvetjandi og sýnir allt, ekki bara glansmyndina.
Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.