fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Banaslys á Djúpavogi – Ökumaður vinnuvélar sá ekki fram fyrir sig

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024 15:00

Frá Djúpavogi. Mynd: Pjetur Sigurðsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá sér lokaskýrslu vegna banaslyss sem varð á Djúpavogi í júní 2022 þegar ökumaður vinnuvélar ók á erlendan ferðamann nærri hafnarsvæðinu í þorpinu með þeim afleiðingum að ferðamaðurinn lést. Er það niðurstaða nefndarinnar að orsakir slyssins hafi verið nokkrar en meginorsökin sé sú að útsýn ökumanns vinnuvélarinnar fram á veginn hafi verið skert vegna farms á lyftaragöfflum hennar.

Sjá einnig: Banaslys á Djúpavogi

Í skýrslunni kemur fram að ferðamaðurinn sem lést hafi verið að skoða listaverk sem stendur mjög nálægt veginum á Víkurlandi á Djúpavogi. Á sama tíma hafi ökumaður vinnuvélarinnar verið að aka henni suður Víkurland frá hafnarbakka í Innri-Gleðivík áleiðis að fiskmarkaði Djúpavogs við Djúpavogshöfn en þessi leið er um 1 kílómetra löng. Ofan á lyftaragöfflum á vinnuvélinni var fiskfarmur í fjórum fiskikörum sem hafði verið staflað hvert ofan á annað. Ók lyftarinn á endanum á ferðamanninn, sem var á sjötugsaldri, sem lést.

Í atvikalýsingu í skýrslunni kemur fram að vinnuvélinni hafi verið ekið vinstra megin á veginum. Vinnuvélin var ásamt fleiri tækjum nýtt við löndun á fiskikörum úr fiskiskipi og flutning þeirra á fiskmarkaðinn. Venjulega er landað á bryggjunni við markaðinn en það var ekki mögulegt í þetta skipti vegna viðgerða á viðlegukanti og því þurfti að flytja fiskinn alla þessa leið.

Ekki er vitað á hversu miklum hraða vinnuvélinni var ekið en í skýrslunni segir að teknu tilliti til aðstæðna og því að fiskikörin féllu ekki af göfflunum þegar ökumaðurinn hemlaði sé hægt að draga þá ályktun að hraðinn hafi ekki verið mikill.

Útsýn var lítil

Þegar slysið varð voru engar merkingar eða skipulag á svæðinu sem afmarkaði listaverkið, sem ferðamaðurinn var að skoða, frá veginum, þar sem slysið varð, til að auðvelda ferðamönnum að skoða það þrátt fyrir nokkuð stöðuga umferð vinnuvéla og annarra atvinnuökutækja. Framleiðsluhúsnæði þar sem var starfsemi allan ársins hring var vestan Víkurlands á móts við listaverkið.

Í skýrslunni kemur fram að útsýn úr vinnuvélinni fram á veginn var takmörkuð vegna fiskikaranna. Hæð hvers fiskikars var 0,58 metrar  og heildarhæð staflans um 2,3 metrar auk þess sem þeim hafði verið lyft upp frá veginum á meðan akstrinum stóð. Breidd karanna var 1,2 metrar og fiskikörin voru um 3 metra frá ökumanninum. Ökumaður sagðist hins vegar hafa haft möguleika á að sjá lítillega fram á veginn, í gegnum götin á körunum sem eru ætluð fyrir gaffla lyftitækja.

Ökumaður vinnuvélarinnar sagðist hafa séð einn gangandi vegfaranda á veginum, hægra megin við vinnuvélina, og hann því haldið sig vinstra megin á veginum. Hann hafi einnig gert það til að forðast holur í veginum. Hann hafi ekki séð neinn vegfaranda nær listaverkinu. Hann kvaðst hafa náð augnsambandi við gangandi vegfarandann skömmu áður en slysið varð og taldi hann hafa áttað sig á leið lyftarans um veginn. Hann hafi byrjað að hemla þegar hann fann fyrir höggi.

Fór ekki rétt að

Í skýrslunni segir að á vinnuvélanámskeiðum sé ökumönnum kennt að bakka ef farmur á göflum hindrar útsýn þeirra en maðurinn hafi ekki farið eftir því og ekið vinnuvélinni áfram og þar að auki ekið vinstra megin á veginum.

Skipulag hafnarsvæðisins hafi hins vegar ekki gert ráð fyrir afþreyingu fyrir ferðamenn eins og raunin varð með uppsetningu listaverksins og tíðum ferðum ferðamanna til að skoða það. Ekki hafi fundist nokkur merki um það í fundargerðum sveitarstjórnar að hugað hafi verið að öryggi á svæðinu þegar samþykkt var að listaverkið yrði sett upp á þessum stað.

Það er niðurstaða Rannsóknarnefndar samgönguslysa að meginorsök slyssins hafi verið sú að ökumaður vinnuvélarinnar veitti ekki ferðamanninum athygli þar sem útsýn hans fram á veginn var skert vegna farmsins á göfflum vinnuvélarinnar.

Aðrar orsakir séu þær að vinnuvélinni hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi, ökumaðurinn hafi ekið henni áfram í stað þess að bakka eins og gera eigi þegar útsýn sé skert vegna farms, engir kaðlar eða annað slíkt hafi verið á svæðinu til aðgreina listaverkið frá veginum og loks að skipulagsmálum svæðisins hafi verið ábótavant þar sem engar breytingar hafi verið gerðar á skipulaginu og heldur ekki hugað að öryggismálum þegar listaverkinu var komið fyrir.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til sveitarfélagsins Múlaþings, sem Djúpivogur er nú hluti af, að bæta úr öryggis- og skipulagsmálum á svæðinu þar sem slysið varð.

Skýrslan í heild sinni er aðgengileg hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Í gær

Eldgos hafið á Reykjanesi

Eldgos hafið á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“