Eyjan greindi frá málinu í gær en Össur skrifaði langa færslu á Facebook um arftaka Bjarna Benediktssonar sem formanns Sjálfstæðisflokksins og nefndi nokkur nöfn sem orðuð hafa verið við formannsstólinn þegar Bjarni stendur upp.
Sjá einnig: Össur nefnir óvæntan kandídat sem gæti tekið við af Bjarna
Össur nefndi Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson en þau hafa helst verið orðuð við formanninn að undanförnu. Össur nefndi svo óvæntan kandídat sem ekki hefur mikið farið fyrir í umræðunni, Hildi Sverrisdóttur.
„Annars horfði ég á Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu seint í gærkvöldi. Hún var ansi vösk, kjaftfor án þess að vera dónaleg og nógu ófyrirleitin til að heimta afsökunarbeiðni frá Samfylkingunni fyrir klúður Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum. Hún sýndi satt að segja fágæta hæfileika til að verja vondan málstað. Er Hildur kannski leiðtogaefnið,“ spurði Össur í færslu sinni.
Hildur skrifaði færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún tók fram að hún hafi alltaf haldið dálítið upp á Össur. Ekki væri laust við að hún væri upp með sér að fá að vera andlag í „ekta smjörklípu“ þar sem Össur reynir að beina kastljósinu frá vandræðaganginum í Samfylkingunni.
„Ég hélt reyndar að klípurnar þyrftu að hafa einhver örlítil tengsl við veruleikann en það er kannski engin krafa. Ekki ætla ég að þykjast hafa meira vit á smjörklípufræðunum en Össur.“