Á sunnudag greindi DV frá máli Láru Bjarkar Sigrúnardóttur, sem liggur á St. Martins-spítalanum í borginni Varna í Búlgaríu. Lára Björk fékk sýklasótt vegna þvagfærasýkingar, sem leiddi til blóðsýkingar í nýrum og lifur. Lára Björk er komin með drep í fingur og tær sem læknar á sjúkrahúsinu sögðu henni að þeir vildu fjarlægja.
Lára Björk, sem er fimm barna einstæð móðir, var stödd í tíu daga fríi í Búlgaríu. Eldri börn hennar tvö, Nadia Rós Sheriff og Arnar, komu til Búlgaríu á laugardag og fengu að hitta móður sína í fimm mínútur. Í frétt DV er rakið að Nadia Rós kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar kom að því að fá upplýsingar um tryggingar og annað fyrir móður hennar, fá nauðsynleg skjöl frá sjúkrahúsinu og aðstoð frá Borgaraþjónustu.
Í yfirlýsingu sem Nadia Rós sendi á fjölmiðla kemur fram að á sunnudagskvöld setti „yndislegur íslendingur sem sagðist vera staðsettur í Varna og talar góða búlgarísku,“ sig í samband við hana. „Þessi yndislegi samborgari sem hefur enga hagsmuni að gæta bauðst til að sækja okkur systkinin í morgun og vera túlkur okkar á mánudag í samskiptum við spítalann.“
Nadia Rós segir frænku sína hafa hjálpað þeim í samskiptum við opinbera aðila og tryggingarfélagið Vörð. Hún hafði samband við utanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra, henni var beint á Borgaraþjónustuna sem hefur verið að benda á Ræðismann í Sofia eða haft samband við sendiherra. „Í þessu ferli hefur þeim gengið illa að fá sjúkragögn eða fá samband við læknana úti. Allir reyndu það sama og við að hringja á spítalann en það er skellt á. Þá hefur okkur aldrei verið boðinn túlkur á þessari viku sem við höfum verið að vinna í þessu fyrr en núna. Þá fengum við lista með túlkaþjónustu, þjónusta sem við áttum að hafa sjálf samband við. En við þurftum ekki á því að halda þar sem við vorum með mikla aðstoð frá samborgara okkar sem hefur túlkað allt fyrir okkur.
Okkur finnst athyglisvert að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki gert neitt fyrir okkur í öllu þessu ferli. Ekki einu sinni þegar við bentum þeim á að það gengi illa að ná á spítalann og fá tilskyld sjúkragögn fyrir SOS International. Svörin sem þeir gáfu okkur, „Við fáum skýrslur í lok árs.“ Fyrir fjölskylduna lítur þetta út eins og að Sjúkratryggingar Íslands greiði bara spítalakostnað án nokkurra athugasemda eða spurninga.“
Systkinin fengu staðfest á mánudag að tryggingafélagið Vörður er tilbúið til að taka á sig áhættuna af kostnaði varðandi sjúkraflugið, þar sem Sjúkratryggingar Íslands greiða almennt ekki kostnað vegna sjúkraflugs.
„Við fengum loksins læknaskýrslurnar og sendum á SOS International. Einnig sendi heilsugæslan hennar öll tilskyld gögn sem SOS International óskaði eftir. Nú eru læknar hjá SOS International að lesa yfir læknaskýrslurnar sem þeim hafa borist, til að kanna hvort að mamma sé í nógu stöðugu ástandi til að vera send með sjúkraflugi.
Við gerum okkur grein fyrir að allir aðilar málsins reyndu sitt allra best sem þeir gátu, en við vonum að utanríkisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið fari að íhuga verklag sitt þegar svona tilfelli koma upp þegar Íslendingar ferðast erlendis.“ Systkinin hvetja Íslendinga sem eru að ferðast að passa upp á að vera vel tryggð áður en haldið er af stað í utanlandsferðir.
„Tryggingarfélagið Vörður á heiður skilið fyrir frábæra þjónustu. Þar var ekki skellt á okkur eða símsvari sem sagði að það er opið á skrifstofutíma. Við fengum mikla aðstoð og upplýsingar frá ráðgjafa um það hvaða gögn vantaði. Þó svo að við vorum búin að vera í miklum samskiptum við SOS International þá hjálpaði að heyra í ráðgjafa hjá Verði, hann lagði sig allan fram og upplýsti okkur að hann myndi taka á móti gögnum þegar þau bærust.“
Lára Björk er búsett í Sandgerði ásamt þremur yngstu börnum sínum. Segir Nadia Rós í samtali við DV að systir Láru Bjarkar hafi hafi hugsað um börnin meðan móðir þeirra var erlendis. „Hún mun koma til að aðstoða okkur áfram næstu mánuði þegar og ef mamma kemst heim.“
Ljóst er að langur batavegur er framundan hjá Láru Björk og ef einhver vilja styðja við fjölskylduna má leggja inn á neðangreindan reikning sem er á nafni og kennitölu systur hennar, Theódóru Bragadóttur.