fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Umfangsmiklil yfirhalning örorkulífeyriskerfisins í burðarliðnum – Þetta eru stærstu breytingarnar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 19. febrúar 2024 20:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur kynnt til samráðs drög að frumvarpi sem varðar endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Þessar breytingar hafa það að markmiðið að draga úr áhrifum atvinnutekna á örorku- og endurhæfingarlífeyrisgreiðslur og hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku.

Segir í frumvarpinu:

„Verði frumvarp þetta að lögum verða það veigamestu breytingar á örorkulífeyris- og endurhæfingarkerfinu sem gerðar hafa verið um langt árabil.“

Í Samráðsgátt eru tekin saman helstu nýmæli og úrbætur sem í frumvarpinu felast.

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur

Í staðinn fyrir endurhæfingarlífeyri verði komið á fót sjúkra- og endurhæfingagreiðslum. Þessar greiðslur muni ná til breiðari hóps af fólki en áður. Þessar greiðslur verði veittar til fólks sem fær viðurkennda meðferð, tekur þátt í endurhæfingu, bíður eftir að komast í meðferð eða endurhæfingarúrræði með það að markmiði að stuðla að aukinni þátttöku á vinnumarkaði eða eftir því að viðkomandi teljist fær um að hefja meðferð eða endurhæfingu. Til grundvallar greiðslum verði endurhæfingaráætlun sem taki mið af þörfum einstaklingsins hverju sinni.

Samþætt sérfræðimat:

Horfið verði frá örorkumati eins og þekkist í dag. Þess í stað verði tekið upp samþætt sérfræðimat sem er heildrænt mat á getu viðkomandi til virkni á vinnumarkaði. Þetta byggir á hugmyndafræði alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Hugsunin að baki snýr að valdefllingu og að því að styðja fólk til að nýta sem best alla sína getu.

Ekki er um að ræða starfsgetumat í þeim skilningi að aðeins sé tekin ákvörðun um getu viðkomandi til atvinnuþátttöku og það látið ráða hvaða fjárhagslega stuðningi viðkomandi á rétt á.

Nýr örorkulífeyrir:

Tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar verði sameinaðir í einn flokk: Nýjan örorkulífeyri. Hann greiðist þeim sem hafa verið metnir með enga eða mjög takmarkaða getu til atvinnuþátttöku (0-25%). Reglur um útreikning verði gerðar einfaldari og skýrari.

Áfram verður gert ráð fyrir greiðslum sem koma til viðbótar örorkulífeyri við ákveðnar aðstæður, aldursviðbót og/eða heimilisuppbót.

Hlutaörorkulífeyri:

Sú nýbreytni verði tekin upp að greiða svokallaðan hlutaörorkulífeyri. Hann er fyrir fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir örorkulífeyri en er þó metið með takmarkaða getu til virkni á vinnumarkaði (26-50%). Þau sem hafa tækifæri til að vinna hlutastörf geti með þessu aukið ráðstöfunartekjur sínar umtalsvert því auk launa munu þau eiga rétt á hlutaörorkulífeyrinum.

Virknistyrkur:

Vinnumálastofnun verði falið að greiða sérstakan virknistyrk. Þessum styrk er ætlað að grípa fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu. Þannig sé styrkurinn mikilvægur hvati til atvinnuþátttöku. Fólk geti fengið þennan virknistyrk frá Vinnumálastofnun í allt að 24 mánuði meðan það er í virkri atvinnuleit og njóti aðstoðar stofnunarinnar við leitina. Styrkurinn fellur niður þegar og ef fólk hefur störf. Ef fólk hefur ekki fengið starf eftir þessa 24 mánuði getur það óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati.

Sérstakt frítekjumark þeirra sem fá hlutaörorkulífeyri

Frítekjumark, þær tekjur sem fólk má hafa án þess að greiðslur til þeirra skerðast, verði aukið til að hvetja fólk til að fara út á vinnumarkað. Sérstakt frítekjumark þeirra sem njóta hlutaörorku verður 250 þúsund á mánuði og almennt frítekjumark verður 100 þúsund. Samanlagt geti einstaklingur á hlutaörorku því haft 350 þús. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til hans skerðist.

Lagt er til að 45% af öðrum tekjum sem hlutaörorkulífeyrisþegi kann að hafa umfram frítekjumörk hafi áhrif til lækkunar við útreikning, eins og mun gilda um örorkulífeyri. Þessi lækkun verður reiknuð af samanlagðri fjárhæð allra greiðsluflokka sem einstaklingur á rétt á frekar en að hver og einn greiðsluflokkur sé reiknaður út sérstaklega.

Sérstök framfærsluuppbót úr sögunni

Í greinargerð með frumvarpinu segir að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Sérstaklega verði við endurskoðun horft til þess að bæta afkomu og möguleika einstaklinga til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum og áhersla á að bæta afkomu, þá sérstaklega þeirra sem lakast standa. Kerfið verði einfaldað, dregið úr tekjutengingum og kerfið gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara.

Til stendur að innleiða breytingarnar í áföngum og þeir sem eru með fullt örorkumat þegar nýja kerfið er tekið upp hafa val um hvort þau færast yfir í nýja kerfið.

Breytingarnar taka mið af vinnu tveggja starfshópa sem skiluðu niðurstöðum árið 2019, annars vegar faghóp um innleiðingu starfsgetumats og hins vegar samráðshópur um breytt framfærslukerfi almannatryggingar.

Segir í greinargerð að útreikningar sýni að langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri í dag muni fá hærri greiðslur samkvæmt þessu nýja kerfi. Í sumum tilvikum muni þetta þó leiða til lækkunar. Annars vegar þeir sem munu fá lægri greiðslur vegna breytinga á reglum um áhrif lífeyrissjóðstekna á útreikning, eða þeir sem hafa mjög háar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Hins vegar örorkulífeyrisþegar sem ekki hafa áunnið sér full lífeyrisréttindi hér á landi vegna stuttrar búsetu og munu fá lægri greiðslur þar sem sérstök framfærsluuppbót mun falla brott. Tekið verður tillit til þessara hópa og tryggt að þeir fái sambærilegar greiðslur áfram.

Aldursviðbót verður með breyttu sniði og greiðist einvörðungu þeim sem eru metnir með örorku fyrir 44 ára aldur.

Hér má lesa frumvarpið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“