Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann að nafni Arturas Safarian í 17 mánaða fangelsi fyrir aragrúa af þjófnaðarbrotum og öðrum hegningarlagabrotum. Tekið skal fram að dómurinn er ekki skilorðbundinn.
Arturas er meðal annars sakfelldur fyrir að hafa keypt vörur með N1 viðskiptakorti í eigu annars manns og fyrir að hafa hvað eftir annað keypt eldsneyti og aðrar vörur með stolnum dælulyklum hjá bensínstöðvum ÓB, Orkunnar og N1.
Hann var einnig sakfelldur fyrir bílþjófnað og fyrir að stela verðmætum úr bíl, og ýmis fleiri brot.
Arturas játaði brot sín fyrir dómi og var það virt honum til refsilækkunar, en kom þó ekki í veg fyrir fangelsisvist.
DV fjallaði um Arturas sumarið 2023 en þá olli hann miklum usla í miðbænum vegna sífelldra þjófnaðarbrota. Í fréttinni segir meðal annars:
„Áráttukenndur stórþjófur hefur að undanförnu valdið miklum usla í miðbænum. Maðurinn heitir Arturas Safarian og er frá Litháen en býr á Freyjugötu í Reykjavík. Undanfarið hefur DV orðið vart við nokkrar tilkynningar frá sárum borgurum sem bera þjófnað á Arturas.
Hjólhestahvíslarinn Bjartmar Leósson, sem hefur vakið landsathygli fyrir að endurheimta stolin reiðhjól og annað þýfi, segir manninn hafa stolið fyrir milljónir. Bjartmar endurheimti nýlega dýrt Trek-hjól úr vörslu mannsins en segir hann enn sitja á miklum stolnum verðmætum sem hann hefur ekki tekist að endurheimta frá honum. Á Facebook skrifar Bjartmar:
„Þessi gæi enn og aftur.
Hann var með þetta Trek rafhjól í dýrari kantinum sem er nú hjá eiganda sínum eftir að við náðum því af honum. Svo er hann líka með Dewalt verkfærakassa og verkfæratösku. Náði því ekki af honum því miður. Hann heldur til á Freyjugötu [X XXXXXXX – úrfelling: DV]. Alltaf bara pollrólegur og sultuslakur, búinn að stela hér fyrir margar milljónir.
Og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er bara sátt við stöðu mála…
Allavega er EKKERT að gerast.“
Bjartmar segir í samtali við DV að á tímabili hafi þetta verið eini maðurinn sem hann var að sækja stolin hjól til, svo stórtækur hafi hann verið í gripdeildum sínum.“
Arturas er með marga dóma að baki, mest fyrir þjófnaðarbrot en einnig líkamsárásir. Dómur var kveðinn upp yfir honum 2. mars 2023. Sjá hér.