Star Trek leikari drakk sig til óbóta og stundaði hópkynlíf
Leonard Nimoy, betur þekktur sem Spock í Star Trek, var í raun og veru kynlífsóður alkahólisti, þetta segir fyrrverandi meðleikari hans William Shatner. Nærri ár er liðið frá því að Nimoy lést 83 ára að aldri og skrifar Shatner hreinskilnislega um vin sinn í Daily Mail um helgina.
„Fyrsta kona Leonards, Sandy, var mjög fjörug, hún gekk um í flottum fötum og elskaði rokk og ról. Þau fóru saman í ástarveislur, þar sem fólk kynntist hvort öðru mjög náið. Hann sagði mér eitt sinn að þetta væri ekki beinlínis hópkynlíf en fólk væri í djúpum faðmlögum,“ skrifar Shatner.
Hann segir að drykkja Nimoy hafi aukist verulega þegar Star Trek urðu vinsælir þættir: „Hann fór að drekka mikið í kringum 1967, þegar við vorum að taka upp aðra þáttaröðina af Star Trek. Hann hafði alltaf fengið sér vínglas eftir vinnu en sú hefð tók yfir allan persónuleika hans. Þegar hann var að leikstýra þá var alltaf ritari tilbúinn með pappaglas strax og tökum dagsins var lokið.“
Shatner segir að drykkjan hafi aldrei haft áhrif á störf Nimoy, hann hafi verið fagmannlegur í vinnu en þegar hann átti frí þá hafi hann byrjað að drekka snemma á morgnanna og ekki hætt fyrr en hann hafi dáið áfengisdauða: „Hluti vandans voru vonbrigði hans með frægðina. Hann hafði verið vinna lengi að því að verða leikari, unnið við ýmislegt í millitíðinni, þar á meðal keyrði hann leigubíl.“
Nimoy hætti að drekka í byrjun tíunda áratugsins og tjáði sig opinberlega um áfengissýkina í viðtali árið 2001: „Strax og við kláruðum upptökur á Star Trek þá fékk ég mér í glas. Svo varð það að nokkrum glösum,“ sagði Nimoy. Nimoy lést úr lungnaþembu eftir að hafa reykt í meira en 30 ár.