Stingur upp á endurskinsmerkjum og firmavörum í stað sælgætis
„Það þarf líka að gagnrýna fyrirtækin og nammiframleiðendurna í þessu því þeir sjá um að moka þessu í börnin og svo samþykkja foreldrarnir þetta. Ég hef til dæmis séð dóttur mína koma heim með heilar sex stangir af hraun-súkkulaði“ segir Davíð Kristinsson, næringar- og lífsstílsþjálfari en hann segir það varhugaverða þróun hversu gríðarlegt magn af sælgæti sé ausið í börn í tilefni öskudagsins og hvetur foreldra sem og fyrirtæki til að líta sér nær. Bendir hann á að öskudagur sé ekki eini dagur ársins sem snúist um mikla sykurneyslu og leggur hann til að sætindunum verði skipt út fyrir aðra hluti.
Davíðs Kristinsson hefur starfað sem einkaþjálfari í 15 ár og sérmenntað sig sem næringar- og lífsstílsþjálfari. Hann á Heilsuþjálfun ehf. á Akureyri. Hann ræddi málið við dv.is en vakti upphaflega athygli á málinu í færslu á fésbókarsíðu sinni þar sem hann áætlar að hvert barn á Akureyri uppskeri rúmlega tvö kíló af sælgæti á öskudag. „Mér er óglatt. Sorrý, en við fullorðnir/foreldrar erum fyrirmyndin, og ef þetta er uppeldið þá er mataræðið ekkert að fara að lagast. Því það er ekki bara á þessum degi sem börn fá nammi.“
„Ekki koma með afsökun að þetta sé bara einu sinni á ári! Því jú börnin þín fá að jafnaði oft sykur og nammi,“ segir Davíð jafnframt. Þá bætir hann einnig við: „Mér finnst heilsubaráttan alltaf vera töpuð á þessum degi sem og á laugardögum á nammi barnum. En það er ekki bara sykurinn. Um leið og margir eru að verða hollari eru aðrir að sökkva enn dýpra í óhollustuna. Offita barna og heilsuleysi er ekki fyndinn. Sjá þessi grey labba uppá aðra hæð móð eftir það. Þurfa að taka sér pásu til að syngja og svo er annaðhvert barn í yfirþyngd.“
Ekki eru allir sammála skoðun Davíðs en á meðan margir taka undir með honum eru aðrir sem bregðast illa við. Er meðal annars bent á að Öskudagurinn sé gömul og rótgróin hefð og þá er Davíð einnig sakaður um fitufordóma.
Í samtali við DV.is segir Davíð að með færslu sinni hafi hann fyrst og fremst verið að gagnrýna hið gríðarlega magn sælgætis en meiningin hafi alls ekki verið að slengja fram fordómum á einstaklinga í yfirþyngd, né reyna að leggja af öskudaginn. Telur hann að um nauðsynlega umræðu sé að ræða enda hafi hann sjálfur orðið var við gríðarlegu þyngdaraukningu hjá ungmennum og í mörgum tilfellum megi tala um offitu.
„Hér fyrr á árum var sleginn kötturinn úr tunnunni og krakkar fengu nokkrar karmellur. Núna erum við að tala um heilu risapokana af sælgæti,“ segir Davíð en hann segir öfgarnar ekki einskorðast við öskudag heldur einnig við aðra daga sem gangi út á sykurát, svosem bolludag sem hafi í raun staðið yfir í tíu daga. „Svo þarf ekki annað en að horfa á nammibarinn í Hagkaup á laugardögum. Þetta er afskaplega vond þróun, um leið og við erum að verða rosalega holl þá erum við líka að verða rosalega óholl. Þetta fer í báðar áttir. Ég hélt í alvörunni að við værum komin lengra í heilsueflingu.“
Þá segir hann áberandi hversu mikið fólk tipli á tánum þegar talið berst að offitu og helst megi ekki segja neitt. „Það er eins og það sé bara orðið í lagi að vera feitur af því að svo margir eru orðnir það og svo má ekkert segja og ekkert gagnrýna það.“
Sjálfur hefur Davíð haft þann háttinn á að gefa börnum harðfisk þegar þau koma að syngja í fyrirtæki hans. „Við vorum með tvö hundruð poka í fyrra en þá voru fimmtíu pokar eftir í lok dagsins. Núna fóru allir pokarnir á einum og hálfum klukkutíma og krakkarnir voru hæstánægðir með að fá eitthvað annað en eintóman sykur.“
Davíð vill að börn fá annað en sælgæti fyrir sönginn, til dæmis endurskinsmerki nú eða merkta firmavöru, alla vega mun minni nammiskammta.