Herbert var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á RÚV á dögunum og er fjallað um efni hans á vef RÚV.
Í þættinum ræðir Herbert meðal annars neysluna en hann hefur verið mikill reglumaður allt frá því að hann játaði sig sigraðan og fór í meðferð árið 2007.
Kveðst Herbert hafa hætt að reykja 15. apríl 2007 og svo hætti hann að drekka og dópa 1. júlí það ár. Frásögn hans af því hvað varð til þess að hann hætti fyrir fullt og allt er athyglisverð en það gerðist eftir að hann sá frétt á forsíðu DV sumarið 2007.
„Það er tónlistarmaður tekinn á Keflavíkurflugvelli með fulla tösku af kókaíni og ég sé bara fyrirsögnina fyrir mér: Herbert Guðmundsson tekinn með kókaín í Leifsstöð,“ segist hann hafa hugað.
„Ég fer bara, hringi upp á Vog og panta pláss. Moment of clarity. Þetta var wake up call fyrir mig af því ég hafði farið stundum á milli og það myndi koma að þessu,“ sagði Herbert sem sagði að ef það gerðist færi ferillinn í vaskinn.
„Ég þakka alltaf fyrir þetta, að þetta skyldi hafa komið þarna upp og ég skyldi hafa séð þetta í DV.“
Herbert fór í afeitrun, fór í sporavinnuna og byrjaði að sækja fundi. „Nú eru komin 17 ár 1. júlí og ég reyni að fara á þrjá fundi í viku. Sigurinn liggur í uppgjöfinni.“
Herbert segir að bænin hafi einnig hjálpað honum mikið. „Meistari lífs míns er Jesú Kristur. Hann kom til að kenna okkur og ef við myndum breyta eins og hann kenndi væri lífið á jörðinni yndislegt.“