Lögmaðurinn John Ray hefur kallað eftir því að lögregla rannsaki hvort að meinti raðmorðinginn Rex Heuermann, eigi sér fleiri fórnarlömb en þau fjögur sem hann hefur verið ákærður fyrir að bana. Þá einkum hvort að fórnarlömb leynist utan borgarmarka New York.
„Það er ljóst að rannsóknarteymið í Gilgo-strandar morðunum, er ekki nægilega stórt og býr hvorki yfir þeim styrk eða skipulagi sem þarf til að rannsaka mál sem gæti teygt anga sína yfir fleiri ríki Bandaríkjanna“ sagði John á blaðamannafundi í gær.
„Við þurfum að horfa á stóru myndina á alríkismælikvarða. Við þurfum aðkomu alríkislögreglu og ríkissaksóknara að málinu“
Því hefur meðal annars verið velt upp hvort Rex beri ábyrgð á hvarfi konu í Suður-Karólínu árið 2017, en sonur Julia Ann Bean, segist hafa séð móður sína setjast upp í stóran trukk sem hafi verið rekið af Heuermann. Eins er ljóst að Heuermann átti hlut í frístundaheimili í Las Vegas þar sem fjöldi morða og mannshvarfa eru óupplýst. Til dæmis gæti hann hafa átt hluti í hvarfi Jodi Brewer, en búkur hennar fannst í Mojave eyðimörkinni árið 2007.
John Ray gætir meðal annars hagsmuna fjölskyldu Shannan Gilbert sem fannst látin á Gilgo-ströndinni ásamt þeim konum sem Heuermann er sakaður um að hafa myrt. Hins vegar hafði Shannan verið banað með öðrum hætti en hinum fjórum og hefur Heuermann því ekki verið nefndur sakborningur í því máli.
John Ray nýtti eins færið í gær til að hjóla enn og aftur í eiginkonu Heuermann, Ásu Guðbjörgu Ellerup, en Ray segist sannfærður um að hún sé ekki eins saklaus og lögregla haldi.
Hingað til hafa yfirvöld verið mjög skýr um aðkomu Ásu að morðunum. Hún hafi ekki átt neinn hlut, enda víðs fjarri þegar morðin áttu sér stað. Jafnvel eins langt í burtu og á Íslandi.
Ray segir að lögregla ætti þó að skoða þessar fjarvistir Ásu nánar. Mögulega hafi hvorki hún né börn hennar tvö verið fjarverandi þegar ein konan, Maureen Brainard-Barnes, tapaði lífi sínu árið 2007.
Heuermann var ekki ákærður fyrir morðið á Brainard-Barnes fyrr en skömmu eftir áramót. Síðast sást til ungu konunnar í júlí 2007 þegar hún sagðist vera á leið til fundar við skjólstæðing, en hún starfaði við vændi. Fimm dögum seinna var lýst eftir henni eftir að ekkert hafði til hennar spurst síðan.
Saksóknari segir að skjöl yfir ferðir og farsímanotkun Ásu á þessum tíma sýni að hvorki hún né börn hennar hafi verið í New York þarna í júlí 2007. Eins hafi gögn um kortanotkun hennar á tímabilinu ýtt frekari stoðum undir að hún hafi verið víðs fjarri. Þarna hafi hún verið á hóteli í Atlantic City í um tvær vikur.
Ray dregur þetta þó í efa. Gögn um greiðslur á hótelinu sýni að Ása hafi verið þar EFTIR að morðið átti sér stað, en þar sé svo að finna vísun í að hún hafi komið mánuði áður á hótelið og dvalið þar síðan. Þetta sé ekki í samræmi við lengd ferðar sem saksóknari taki fram í gögnum sínum. Á öðrum stað megi finna vísun til þess að Ása hafi mætt til Atlantic City fjórum dögum eftir morðið. Eins megi sjá við nánari eftirgrennslan að þarna var ekki um hótel að ræða heldur orlofsíbúðir þar sem lítið eftirlit er með ferðum gesta. Umsjónarmaður á einu slíku íbúðarhóteli hafi sagt Ray að hann efaði að Ása væri að segja satt um ferðir sínar.
„Umsjónarmaðurinn sem ég ræddi við í gegnum síma fletti dvöl Ásu upp þegar hún var þarna, og las þetta svo upp í tvígang fyrir mig til að það væri skýrt hvað hún væri að segja. Hún gat sagt okkur nöfn þeirra, hvað þau borguðu og hvenær þau voru hér – 17. júlí – 23. júlí.“
Brainard-Barnes hvarf 9. júlí.
„Þessi umsjónarmaður hefur enga ástæðu til að ljúga, og ef þetta er rétt – þá eru þessi gögn röng og þá er saksóknari að halda röngu fram og Ása Ellerup var ekki fjarverandi á þessum tíma.“
Sami umsjónarmaður hafi furðað sig á því að á kvittun bankans vegna greiðslu fyrir gistinguna hafi verið tekið fram hvenær gestirnir skráðu sig inn – það sé ekki venja og hafði umsjónarmaðurinn aldrei heyrt um slíkt áður.
Ray hvetur því lögreglu til að skoða nánar Ásu og börn hennar og hvar þau í raun og veru voru þegar morðin áttu sér stað, þá sérstaklega morðið á Brainard-Barnes.
Lögmaður dóttur Ásu og Rex, Victoria Heuermann, segir að John Ray sé með athyglissýki á háu stigi. Hann sé vanstilltur í samsæriskenningum sínum og hreinlega neiti að sætta sig við að bæði lögregla og ákæruvald hafi útilokað að Ása og börn hennar eigi hlut að meintum brotum Heuermann.
Blaðamannafundur Ray stóð yfir í fjórar klukkustundir, en lögmaðurinn hefur fengið skammir í hattinn frá bæði lögmönnum Heuermann, fjölskyldu hans og svo líka frá embætti saksóknara.
Formleg dánarorsök Shannan er sem stendur talin vera andlát af slysförum, en Ray segir að niðurstöðurnar hafi ekki verið hafðar yfir vafa og þurfi að kryfja stúlkuna að nýju. Hefur hann sakað yfirvöld um að hylma yfir morð, en það sé þekkt staðreynd að lögregluembættið á svæðinu sé gegnsýrt af spillingu.