Hlustaðu á þáttinn hér að neðan, einnig er hægt að hlusta á Apple Podcasts eða hlaðvarpsþjónustu Google.
Ljósmyndarinn, áhrifavaldurinn og hlaðvarpsstjórnandinn Helgi Ómarsson var gestur í Fókus í síðustu viku, spjallþætti DV. Hann fór um víðan völl í þættinum og opnaði sig um ofbeldissamband sem hann var í, flókna bataferlið og hvernig hann vill nota sinn vettvang, hlaðvarpsþáttinn Helgaspjallið, til að hjálpa öðrum.
Fyrir viku síðan kom út þáttur af Helgaspjallinu sem vakti gríðarlega athygli. Í þættinum sagði Birna Ósk Ólafsdóttir frá því hvernig hún hafi kolfallið fyrir manni sem kom síðar í ljós að væri ofbeldismaður.
Hún sagði sambandið hafa verið stormasamt og að fjölmiðlar hafi reglulega fjallað um glæpi þáverandi kærasta hennar, en hann er mjög þekktur hérlendis.
Viðtalið vakti gríðarlega athygli en Helgi hafði samband við umræddan ofbeldismann fyrir það.
„Sko ég hitti hann,“ segir Helgi og bætir við að hann hafi aðeins þekkt manninn fyrir þetta, hafi hitt hann áður og átt góð kynni af honum og þess vegna hafi honum liðið vel að hafa samband við manninn.
„Hann gerði það mjög skýrt og það var eins og það væri hluti af hans bata frá neyslu, að ábyrgð sé mikilvæg og allt svona. Og þegar hann sagði að þetta væri sjálfsagt til að [Birna] gæti náð bata. Ég virði það við hann. En auðvitað er þetta einstaklingur sem er búinn að valda mörgum sársauka og kvíða. Ég vona að hann haldi áfram á hreinu brautinni og geri eins vel og hann getur,“ segir Helgi.
„En ég vissi að þetta væri rétt, fyrir hana og fyrir mig. Varðandi Helgaspjallið vil ég gera allt rétt, ég vil ekki taka feilskref en ef ég geri það þá vil ég strax læra af því.“
Fylgstu með Helga á Instagram og hlustaðu á hlaðvarpið Helgaspjallið á Spotify og Apple Podcasts.
Smelltu hér til að sjá hvar þú getur leitað hjálpar ef einhver er að beita þig eða einhvern sem þú þekkir ofbeldi.