Búi Aðalsteinsson, sem stýrir hlaðvarpinu Hjólavarpið, telur að verði morfín uppáskrifað fyrir fíkla muni það draga úr þjófnaði á reiðhjólum. Hjól séu orðin afar dýr í dag og því um mikil verðmæti að ræða fyrir eigendurna. Leið hins svipta læknis Árna Tómasar hafi minnkað þjófnað.
Þetta reifar hann í grein sem birtist á Vísi í dag.
„Hjólarán eru algeng á Íslandi og tengjast oft neyslu, þjófarnir grípa hluti eins og hjól, eitthvað sem þægilegt er að ferja og reyna að fá þeim skipt fyrir vímuefni, eða koma þeim í verð sem svo fjármagnar neyslu,“ segir Búi.
Hann nefnir hins vegar að einnig sé eitthvað um að hjólum sé einfaldlega stolið til þess að komast á milli hverfa. Þau séu þá skilin eftir á víðavangi að lokinni notkun. Það sé hins vegar vandamál sem sé auðleysanlegra með tilkomu samfélagsmiðla því fólk sé iðið við að deila myndum af hjólum í reiðileysi og auglýsa glötuð hjól.
Það sé hins vegar mýta að skipulagðir glæpahópar steli hjólum í stórum stíl til að flytja úr landi.
„Oft heyrist að skipulagðir glæpahópar safni saman hjólum og flytji í gámum úr landi, þó vissulega hafi fundist stolin hjól í gámum á leið úr landi er það mjög sjaldgæft og heyrir til undantekninga að slíkt eigi sér stað, samkvæmt þeim sem best þekkja til,“ segir Búi.
Þegar komi að reiðhjólaþjófnaði séu úrræði lögreglunnar takmörkuð. Lögreglan taki við tilkynningum um stolin hjól og veiti þeim móttöku ef einhver kemur með þau. Aðeins er hlutast til ef búið er að staðsetja hjólið og færa óyggjandi sannanir fyrir því að það sé stolið.
Í fyrra var tilkynnt um rúmlega 550 stolin hjól. Hin rétta tala sé sennilega í kringum 1000. Flestir þjófnaðirnir eru í miðborginni og Vesturbænum.
Tjónið fyrir eigendurna og tryggingafélög er mikið, sérstaklega með auknum vinsældum dýrra rafmagnshjóla. Í útreikningum gerir Búi ráð fyrir að meðalverð hjóla sé í kringum 200 þúsund krónur. Í heildina sé því tjónið 200 milljón krónur á ári.
„Mögulegt er þó að lágmarka þetta tjón ef stutt er við bak þeirra sem stunda slíkan þjófnað og þau fái hjálp við að hætta og þau sem eru lengra leidd fái aðgang að hreinum efnum, skjól og mat,“ segir Búi. „Aðferðafræði sem oft er kölluð skaðaminnkun.“
Búi nefnir gigtarlækninn Árna Tómas Ragnarsson sem einn helsta skaðaminnkunar-frömuðinn hér á landi. Landlæknir hafi svipt hann starfsleyfinu í desember vegna þess að Árni Tómast hafi skrifað upp á morfín fyrir langt leidda fíkla.
Árni Tómas var ekkert að fela aðferðir sínar og skrifaði um þær greinar í Morgunblaðið. Hann hafi líka ekki verið eini læknirinn sem gerði þetta. Þetta væri gert í samráði við Frú Ragnheiði, verkefni Rauða krossins um skaðaminnkandi aðgerðir fyrir fíkla.
Í einni greininni lýsir Árni Tómas því að hafa verið kallaður á teppið af Ölmu Möller landlækni.
„Ég sagði henni einnig hvað meðferð mín hefði gjörbreytt lífi þessara skjólstæðinga minna og að ég vonaði að þeir kæmust út úr þessum vítahring alveg eins mikið og hún. Mér bæri skylda til að sinna öllum skjólstæðingum mínum eins vel og hægt væri í þeirra þágu til að lina vanda þeirra,“ sagði Árni Tómas í maí síðastliðnum.
Líf skjólstæðinga hans hefði breyst til hins betra. Þeir þyrftu ekki lengur að stela og hafi nægan tíma fyrir annað. Þeir hefðu fengið félagslegar íbúðir og sumir vinnu. Vildi hann sjá miklar breytingar á því hvernig væri séð um þennan hóp í heilbrigðis og félagskerfinu. Meðferðir á vegum SÁÁ hafi ekki virkað fyrir alla fíkla.
„Árni Tómas telur það hlutverk lækna að styðja við skjólstæðinga sína og að þessi aðferðafræði hafi dregið verulega úr þjáningum og í einhverjum tilvikum hjálpað fólki að taka skref útí lífið,“ segir Búi. „Nú þegar þetta úrræði hverfur er viðbúið að innbrotum fjölgi og þá sérstaklega á hjólum og innbrotum í bíla og fleiru auðgrípanlegu.“
Búi segir mikilvægt að hjólreiðafólk upplifi sig öruggt. Hvort sem er í umferðinni eða að skilja hjólin sín eftir.
„Eflaust er fólk ólíklegt til að fjárfesta aftur í hjóli ef það hefur lent í þjófnaði. Því mætti segja að uppáskrifað morfín geti dregið verulega úr hjólaþjófnaði ef það er gert af þekkingu og með heildrænum stuðningi við einstaklinga sem glíma við fíknivanda af þessu tagi,“ segir hann að lokum.