fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Draumar Söru brostnir vegna illdeilna annarra – Fær engin svör og blokkuð af formanni

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 29. janúar 2024 20:04

Sara Viktoría Bjarnadóttir vill fá svör varðandi af hverju hún var ekki valin í landsliðshóp KRAFT.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kraftlyftingakonan Sara Viktoría Bjarnadóttir varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hún sá að hún var ekki valin í landsliðshóp Kraftlyftingasambands Íslands (KRAFT).

Það kom henni á óvart þar sem hún var stigahæst á landinu í sínum þyngdarflokki á síðasta ári. Auk þess er hún núverandi bikarmeistari og á fjögur Íslandsmet í greininni. Sara Viktoría óskaði eftir svörum frá stjórn KRAFT en segir að hún hafi verið hunsuð og að formaður sambandsins hafi gengið það langt að blokka hana á samfélagsmiðlum.

Söru grunar um hvað málið snýst og segir það ekki tengjast henni með beinum hætti heldur formanni og varaformanni félags hennar, Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA), þeim Þorbergi Guðmundssyni og Grétari Skúla Gunnarssyni. Hún segir að ósætti milli þeirra og KRAFT hafi ríkt í mörg ár og að hennar mál sé ekki einsdæmi. Hún segir aðra aðila í KFA hafa þurft að þola sömu framkomu.

DV ræddi við Þorberg og Grétar Skúla sem staðfesta frásögn Söru en málið er mun flóknara en virðist í fyrstu. Hinrik Pálsson, formaður KRAFT, sagðist ekki ætla að veita viðtal um málið en sendi DV yfirlýsingu sem má lesa neðst í greininni.

Stutt útskýring á íþróttagreininni

Kraftlyftingakonan Sara Viktoría Bjarnadóttir er 26 ára. Hún byrjaði að æfa íþróttina fyrir fjórum árum, stuttu eftir að hún átti yngri son sinn. Ýmist er keppt í sérstökum búnaði eða án búnaðar. Keppendum er skipt í þyngdarflokka eftir líkamsþyngd. Sara keppir í búnaði í -76 kg þyngdarflokk.

„Ég er bikarmeistari í kraftlyftingum og bekkpressu og á fjögur Íslandsmet í kraftlyftingum. Og er stigahæst í landinu eftir síðasta ár,“ segir hún.

„Þegar þú ert metin fyrir mót þá er einkunn: A, B eða C. Ég er með A lágmörk, sem er bara best. Það sem fylgir því er að ég á í raun að fá styrki til þess að fara á alþjóðleg mót og fá allt borgað undir mig.“

Sara taldi því öruggt að hún yrði valin í landsliðið. Hún veit ekki hversu lengi hún mun vera í atvinnuformi í greininni þar sem hana langar að halda áfram með barneignir á næstu árum. Hún var því ánægð með árangur sinn í fyrra og vongóð um næsta keppnisár. Síðastliðinn þriðjudag var landsliðsval Kraftlyftingasambands Íslands birt á vefsíðu KRAFT og var þar nafn Söru hvergi að finna.

Sara Viktoría tók 215 kg í hnébeygju, sem er Íslandsmet í hennar þyngdarflokki.

Fær engin svör

Það kom henni verulega á óvart og vildi hún vita af hverju. Hún reyndi að hringja í stjórnarmeðlimi KRAFT og sendi tölvupóst, en fékk engin svör.

„Ég var næst stigahæst á landinu í bæði karla- og kvennaflokkum. Flestir sem eru í landsliðshópnum eru stigalægri en ég og það eru mjög fáir í búnaði á listanum. En það eru aðilar þarna í búnaði sem eru mikið stigalægri en ég,“ segir hún.

Veistu af hverju þú varst ekki valin?

„Ég hef ekkert fengið að vita. Þorbergur, formaður KFA, sendi tölvupóst um leið og óskaði eftir svörum. Ég reyndi að hringja í alla sem eru í stjórninni samdægurs. Það er starfsmaður á launum hjá KRAFT og ég reyndi að hringja í hana nokkrum sinnum yfir daginn með mannsæmandi millibili. Hún svaraði mér ekki.“

Sara segir að eina fólkið sem þau náðu á sé annað hvort ekki lengur starfandi í stjórninni, þrátt fyrir að vera skráð í henni, eða hafi ekki verið á umræddum fundi þar sem ákvörðunin um landsliðsval var tekin.

„Þannig ég veit ekki hvaðan þessi ákvörðun kemur. Þetta er ótrúlega vafasamt og það eru svo margar svona sögur um sambandið. Ég þekki eina sem hætti í lyftingum út af því hvernig þetta fólk í stjórninni kom fram við hana. Hún var í landsliðinu,“ segir Sara.

Var blokkuð og veit ekki af hverju

„Ég sendi formanni Kraftlyftingasambands Íslands, Hinriki Pálssyni, ein skilaboð á Facebook: „Sæll, má ég fá númerið þitt? Ég þarf eiginlega að tala við þig.“ Hann blokkaði mig. Hann hefði allavega geta sagt: „Ég tek ekki fyrirspurnum hvað kraftlyftingar varða á Facebook“ eða eitthvað slíkt. Hann hefði getað verið kurteis, en hann blokkaði mig.

Svo fór ég á Instagram og spurði: „Viltu ekki tala við mig?“ En hann blokkaði mig þar líka og formanninn minn líka á báðum miðlunum.“

Sara ræddi við samskiptanefnd sem hún segir hafa rætt við Hinrik. „Hann sagði að það væri verið að vinna í þessu. Þegar þú birtir landsliðsval þá á að vera búið að vinna í þessu.“

Sara segist velta fyrir sér af hverju stjórnin geti ekki staðið með landsliðsvali sínu, útskýrt það og rökstutt, heldur neiti að svara fyrirspurn hennar, blokki hana og hunsi.

Frá aðstöðu Kraftlyftingafélags Akureyrar (KFA).

Forsaga málsins flókin og löng

Sara segir að saga hennar sé því miður ekki einsdæmi og hún þekki aðra kraftlyftingakonu, sem er einnig í KFA, sem hafi þurft að þola hrottalegt einelti af hálfu KRAFT. DV heyrði í konunni sem staðfesti frásögn Söru.

„Þetta var grófasta einelti sem ég hef heyrt um í íþróttum,“ segir Sara.

Umrædd íþróttakona var á leiðinni á HM 2021 að keppa í búnaði. „Hún var búin að æfa eins og skepna. Hún skráði sig á HM og stjórnin gerði enga athugasemd við það. Hún var með aðstoðarmenn, en í búnaði þarftu að hafa tvo aðstoðarmenn og þeir þurfa að þekkja búnaðinn. Þessir tveir höfðu keppt í búnaði sjálfir og hún æft með þeim. Tveimur vikum fyrir mótið bannaði KRAFT aðstoðarmenn hennar og gáfu henni enga útskýringu. Þau vissu að þau höfðu eyðilagt mótið fyrir henni.“

Aðstoðarmennirnir voru formaður og varaformaður KFA, Þorbergur og Grétar Skúli. Sara segir að það sé löng forsaga um ósætti milli KRAFT og þeirra tveggja.

Varaformaður KFA og þjálfari félagsins, Grétar Skúli Gunnarson, er fyrrverandi formaður félagsins en steig til hliðar þegar fyrrverandi meðlimur KFA kærði hann. Þá steig Þorbergur Guðmundsson í formannshlutverkið, en Þorbergur er maður Söru Viktoríu.

„Formaðurinn er maðurinn minn, það er minn glæpur að öllum líkindum,“ segir Sara og bætir við að forsagan um ósætti spanni þrettán ár aftur í tímann.

„Hversu langt aftur viltu fara?“

„Hversu langt aftur viltu fara?“ spurði Þorbergur þegar DV hafði samband við hann vegna málsins. Hann sagði málið hafa átt sér langan aðdraganda en það stærsta hafi verið ásakanir sem voru bornar gegn Grétari Skúla fyrir nokkrum árum, meðal annars var hann sakaður um kynferðislega áreitni. Rannsókn á honum hófst í kjölfarið en málið var fellt niður tveimur árum síðar.

„Við þessar ásakanir var tekin einhver hörð staða gegn félaginu, þrátt fyrir að hann hafi stigið til hliðar sem formaður. Og okkur var í raun kúplað út úr öllu starfi. Hann fékk niðurstöðuna frá ríkissaksóknara í apríl 2023 að málinu yrði vísað frá og engin ákæra yrði gefin út. Þetta hafði þá velkst um í kerfinu í rúmlega tvö ár.

Við héldum að við gætum þá komið til baka og það væri ekkert vesen. En nú enda ég árið sem stigahæsti karlinn og Sara sem næst stigahæsta konan, með öll lágmörk og við pössuðum að uppfylla öll skilyrði, eins og að vera með tvö meistaramót á árinu undir beltinu. Stjórnin setti ekkert opinberlega út á að Grétar Skúli myndi mæta á innanlandsmótin. Þannig að þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti að Söru sé meinaður aðgangur að þessum mótum.“

Þorbergur segir að honum finnst ekki eiga að refsa Söru Viktoríu vegna málsins. Hann segir það eiga sér lengri aðdraganda og megi rekja enn lengra aftur í tímann.

Þorbergur við æfingu hjá KFA.

Grunsamlegt hvernig þessu var háttað

Megingagnrýni Söru Viktoríu og Þorbergs snýst um hvernig málunum hefur verið háttað og samskiptaleysi. „Ástæðan fyrir því af hverju bæði ég og Sara Viktoría vorum ekki valin ætti að liggja fyrir. Ég ætti að geta hringt í formann KRAFT og hann sagt: „Þið voruð ekki valin út af þessu.“ Hann ætti ekki að þurfa fjóra, fimm, sex daga, til að hugsa svar.“

Þorbergur segist einnig þykja grunsamlegt að venjulega er landsliðsval kynnt í byrjun janúar. „Það var ekki gert núna fyrr en 23. janúar og svo allt í einu á að skrifa undir landsliðssamninga bara á morgun. Mér finnst það verið að þrengja tímann til að geta andmælt þessu almennilega.“

Þorbergur segir að þetta sé ekki það eina sem hefur verið athugunarvert við framkomu KRAFT í garð KFA. Hann segir fleiri dæmi sýna óvild KRAFT, eins og að stjórnin hafi ekki uppfært upplýsingar um KFA á vefsíðu KRAFT, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir í rúmt ár, en yfir þann tíma uppfært upplýsingar annarra félaga á sömu síðu.

Sara Viktoría Bjarnadóttir.

Telur þetta hafa verið gert til að bola sér burt

Grétar Skúli Gunnarsson, varaformaður KFA og þjálfari hjá félaginu, segist líta svo á að ásakanirnar gegn honum hafi verið tilraun ákveðinna aðila að bola honum burt.

„Þetta er mjög langdregið og flókið mál. Frá 2014 til lok ársins 2019 var ég með mjög marga landsliðsmenn í þjálfun. Tuttugu og eitthvað einstaklingar, sem voru 80 til 90 prósent af landsliðinu, og það var þannig í mörg ár,“ segir hann.

„Það er oft erfitt að koma fólki út sem hefur verið ríkjandi í mörg ár og allt þetta dæmi, eins og með ásakanirnar, þetta var allt til að koma mér í burtu svo það væri engin samkeppni. Þetta lið sem tók við þessu er búið að hafa þetta eftir sínu höfði, þannig séð. Þau nýttu sér veikleika hjá okkur, en við vorum í vandræðum með aðstöðu og misstum þáverandi húsnæði.“

„Leiðinlegast fyrir Söru Viktoríu“

Grétar Skúli bendir á árangur Þorbergs, sem eins og Sara Viktoría, komst ekki í landsliðshópinn í ár. „Þorbergur er búinn að vera í landsliðinu síðan hann var unglingur, í tíu eða ellefu ár. Hann hefur meðal annars orðið Evrópumeistari.“

Grétar Skúli segir að hvernig landsliðsvali sé háttað hafi verið umdeilt í gegnum tíðina þar sem honum, og öðrum, hafi þótt huglægt mat frekar en beinharðar tölur ráða úrslitum. Hann segir valið litað af pólitík og fámennisstjórn.

„Það er búið að fara svolítið „all-in“ í að reyna að koma í veg fyrir að við fáum að vera með,“ segir hann.

„Þetta er leiðinlegast fyrir Söru Viktoríu. Við Þorbergur getum alltaf haldið áfram að berjast en Söru langar að gera aðra hluti. Hún er búin að vera mjög dugleg að æfa í nokkur ár,“ segir hann og nefnir það sama og Þorbergur og Sara Viktoría, að það sé fólk í landsliðshópnum sem er stigalægra en þau. Hann segir meira að segja einstaklinga í hópnum sem ná ekki lágmörkum fyrir landsliðsverkefni.

„En ég vil ekki vera að segja of mikið. Ég er bara með lögfræðinga í öllu mínu. Það var gengið rosa hart í öllu þessu hjá mér. Við erum með lögfræðinga sem eru að reyna að eiga samskipti við KRAFT.“

Hinrik Pálsson, formaður KRAFT, sagðist ekki geta veitt blaðamanni viðtal en sendi eftirfarandi yfirlýsingu:

„Vegna fyrirspurnar um landsliðsval KRAFT fyrir árið 2024 er bent á tilkynningu um landsliðsvalið sem birt var á heimasíðu sambandsins 23. janúar sl., sjá hér: https://kraft.is/landslidsval-2024-2/

Í tilkynningunni eru talin upp þau skilyrði sem fram koma í 3. gr. verklagsreglna KRAFT um val í landsliðsverkefni.

Við val á iðkendum í landsliðsverkefni er horft til heildarmats þessara þátta. KRAFT er ekki skylt að veita einstökum iðkendum sérstakan rökstuðning fyrir valinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Í gær

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
Fréttir
Í gær

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt